„Ekki eins einfalt og það átti að vera“

Ómar Þór Júlíusson, yfirvélstjóri á Þór.
Ómar Þór Júlíusson, yfirvélstjóri á Þór. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í nótt náðist að koma á rafmagni á Dalvík en það er framleitt í varðskipinu Þór sem nú liggur þar við bryggju. Rafmagnið kom á eftir miðnætti í  gær en þetta er í fyrsta skiptið sem varðskip er tengt svona við rafmagnskerfi í landi. Ómar Þór Júlí­us­son, yf­ir­vél­stjóri á Þór, segir við mbl.is að þurft hafi að gera þó nokkrar tilraunir og prófa ýmislegt áður en ætlunarverkið tókst.

Kallar á fínpússun en ekki að skipta út búnaði

Án þess að fara í tæknileg smáatriði segir Ómar verkið flóknara en það var kynnt og sýnt Landhelgisgæslunni hjá framleiðandanum í Síle á sínum tíma. „Þetta var ekki eins einfalt og það átti að vera eða hljómaði,“ segir hann.

Hins vegar kalli þetta ekki á að skipta út neinum búnaði eða tækjum. „Þetta er frekar bara að fínpússa hlutina,“ segir hann og bætir við að þessi tæknilegu mál verði yfirfarin í næsta stoppi skipsins. Þá hafi þetta verið góð lærdómskúrfa og segir hann að mun einfaldara ætti að vera að tengja skipið við landtengingu ef aftur komi til svipaðs ástands.

Varðskipið Þór er núí höfninni á Dalvík og framleiðir þar …
Varðskipið Þór er núí höfninni á Dalvík og framleiðir þar rafmagn fyrir bæinn, eða 2 megawött. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á heildina litið segist hann hins vegar mjög ánægður og sáttur með hvernig til tókst í gær og nótt.

„Verðum hér eins og þarf“ 

Samkvæmt því sem Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar, sagði við mbl.is fyrr í dag eru líkur á að viðgerð Dalvíkurlínu og að koma á varanlegu rafmagnssambandi við bæinn, geti tekið tímann fram yfir helgi.

Spurður út í þennan tímaramma segir Ómar að ekki sé enn komið í ljós fullkomlega hvað þeir verði lengi. „Verðum hér eins og þarf,“ segir hann að lokum.

mbl.is