Gasofnar fyrir krókloppna Skagfirðinga

Rarik fékk aðstoð slökkviliðsins á Sauðárkróki við að afísa rafspennana …
Rarik fékk aðstoð slökkviliðsins á Sauðárkróki við að afísa rafspennana í aðveitustöð sinni með heitu vatni. Rafmagn fór af á Sauðárkróki og víðar í Skagafirði í óveðrinu vegna bilunar í landskerfinu. Keyrt var á varaaflstöð í millitíðinni. Ljósmynd/Birgir Bragason

Ekki stóð á viðbrögðum hugulsamra borgara þegar Skagfirðingar óskuðu eftir gasofnum til láns til húshitunar fyrr í dag. Enn eru nokkrir bæir, fimm talsins, án rafmagns í sveitarfélaginu. Íbúar geta nú ornað sér við ofnana þökk sé hugulsömum íbúum sem voru meira en tilbúnir til að lána ofna. Nú sem endranær tóku björgunarsveitarmenn slaginn og keyrðu ofnana á bæina. 

„Við fengum frábær viðbrögð, meira að segja frá fólki í Reykjavík, og við viljum skila miklu þakklæti til allra. Það standa allir saman í svona aðstæðum, sama hvar við stöndum í pólitík,“ segir Svavar Atli Birgisson, slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Skagafjarðar.

Nú er hægt að ná hita upp í fleiri rýmum í húsunum og því minni hætta á skemmdum vegna frosts. Mjög kalt er í veðri á landinu og verður næstu daga og ná kuldatölur niður í tveggja stafa tölu.  

Um kaffileytið eða milli þrjú og fjögur í dag komst rafmagn á Reykjaströndina. „Það var mikill léttir,“ segir Svavar. Á 10-15 bæjum sjá heimarafstöðvar húsunum fyrir rafmagni. Nokkrir ábúendur náðu að grípa til fyrirbyggjandi ráðstafana vegna veðurs. Vonandi fáum við fljótlega rafmagn á restina af bænum en það er ljóst að kerfið er laskað,“ segir Svavar. 

Hann hefur sjálfur staðið vaktina frá því aðfaranótt miðvikudagsins. „Maður hefur sofið inn á milli. Maður er meira og minna vakinn og sofinn yfir þessu,“ segir Svavar og viðurkennir að hann sé orðinn ögn lúinn án þess að vilja barma sér eitthvað frekar. Til að mynda stóð hann vaktina við að afísa spennivirkið, aðveitustöðina á Sauðárkróki, í vikunni eins og meðfylgjandi mynd sýnir.   

 

 

mbl.is

Bloggað um fréttina