Víða áfram rafmagnslaust

Unnið var að því í gær og í nótt að …
Unnið var að því í gær og í nótt að tengja ásrafala varðskipsins Þórs við spenni og næstu spennistöð til að koma rafmagni á Dalvík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það gæti tekið allt að 5-6 daga að koma aftur rafmagni á alla bæi og staði þannig að kerfið verði komið í samt lag og það var, að sögn Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Hann sat fund þjóðaröryggisráðs í gær vegna þeirra fordæmalausu aðstæðna sem sköpuðust í ofsaveðrinu á dögunum.

„Það verður hægt að koma á bráðabirgðarafmagni með varaaflstöðvum miklu fyrr,“ sagði Sigurður Ingi. Hann sagði að lögð yrði áhersla á að fara með rafstöðvar á bæi þar sem er rafmagnskynding og koma rafmagni á hitaveitur sem ekki eru með varaafl til að fá hita í húsin.

Þrjár fjöldahjálparstöðvar Rauða krossins voru opnar í gær, á Dalvík, Tjörnesi og Ólafsfirði. Stöðin á Dalvík var ein opin í nótt, að því er fram kemur í umfjöllun um ofsaveðrið í Morgunblaðinu í dag.

Sigurður Ingi sagði að ofsaveðrið hefði verið fordæmalaust. „Þess vegna er þetta víðtækasta rafmagnsleysi sem við höfum séð lengi. Það var búið að spá þessu og margir tóku það til sín, undirbjuggu sig og voru lítið á ferðinni. Þess vegna held ég að við höfum sloppið með minni áföll en ella, og er þó nóg samt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert