Línuviðgerðum miðar vel

Viðgerð sóttist vel í gær við raflínur sem skemmdust í …
Viðgerð sóttist vel í gær við raflínur sem skemmdust í ofsaveðrinu mikla. Viðgerð á línum Dalvíkurlínu var nær lokið í gærkvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tengivirki Landsnets í Hrútatungu í Hrútafirði leysti nokkrum sinnum út í gær vegna seltu og ísingar. 25 manna hópur átti að hefja hreinsun á einangrurum í tengivirkinu á miðnætti, að sögn Steinunnar Þorsteinsdóttur, upplýsingafulltrúa Landsnets. Reiknað var með að það tæki allt að fjórar stundir.

Á meðan var rafmagn tekið af í Vestur-Húnavatnssýslu og Hvammstanga. Hætta var á að truflanir gætu orðið á rafmagni á Ströndum, í Dölum og Reykhólasveit vegna þessa.

Vel gekk að gera við Dalvíkurlínu í gær. Viðgerð á vírum var nánast lokið í gærkvöld. Eftir var að reisa fjórar stæður eða átta staura og setja upp krossa og slár. Reiknað er með að viðgerð ljúki á miðvikudag.

Kópaskerslína er í rekstri frá Laxá að Lindarbrekku og að fiskeldisstöðinni í Öxarfirði. Í dag hefst viðgerð á línuhlutanum næst Kópaskeri þar sem brotnuðu fjórtán stæður og mun 20 manna hópur vinna við það. Reiknað er með að viðgerð taki nokkra daga. Viðgerð hófst á Húsavíkurlínu í gær og er reiknað með að henni ljúki á morgun, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert