Fjarðarfréttir ekki lengur á pappírsformi

Hafnarfjörður.
Hafnarfjörður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Síðasta prentaða blað Fjarðarfrétta kom út í dag. Guðni Gíslason ritstjóri fjallar um tímamótin í leiðara síðasta blaðsins. Um sé að ræða síðasta prentaða blaðið. Allavega um sinn eins og hann orðar það. Guðni hefur ritstýrt bæjarblaði í Hafnarfirði frá 2001, fyrst Fjarðarpóstinum til 2016 og síðan Fjarðarfréttum fram á þennan dag.

„Rekstrarumhverfi bæjarblaða er þannig háttað að því er næstum sjálfhætt og nýtt fjölmiðlafrumvarp breytir þar litlu enda ekki gert ráð fyrir því að ritstjórar taki sumarfrí og krafa gerð um 48 tölublöð á ári,“ segir Guðni. Gagnrýnir hann enn fremur bæjaryfirvöld í Hafnarfirði fyrir að kaupa frekar auglýsingar í ógagnrýnum miðlum.

„Bæjaryfirvöld hafa kosið þá stefnu að kaupa auglýsingar fyrir tvöfalt hærri upphæð á hvert tölublað í blaði sem gætir þess að segja aldrei gagnrýnisorð um bæjarstjórnina. Bæjaryfirvöld hafa kosið að kaupa frekar auglýsingar og kynningar í utanbæjarblöðum og hika ekki við að kaupa jákvæðar kynningar þar. Bæjaryfirvöld hafa frekar kosið að reka eigin fréttastofu og senda helst aðeins frá sér ritstýrt efni.“

Fyrirtæki hafi að sama skapi í auknum mæli kosið að nýta aðeins samfélagsmiðla og útvarp til að kynna sína þjónustu á kostnað prentmiðla. „Við þessi tímamót er horft björtum augum á framtíðina og á þá möguleika sem alls staðar liggja í loftinu,“ segir Guðni en áfram verði haldið úti fréttavefnum Fjarðarfréttir.

mbl.is