Hreinsa tengivirkið í Hrútatungu í nótt

Verkefnin vegna óveðursins voru fjölmörg.
Verkefnin vegna óveðursins voru fjölmörg. mbl.is/Þorgeir

Óvissustig almannavarna er enn í gildi á Norðurlandi eystra og Norðurlandi vestra og enn er mikil hætta á truflunum í tengivirki Landsnets í Hrútatungu vegna seltu. Því hefur verið ákveðið að hreinsa tengivirkið í nótt og verður rafmagnslaust vegna þessa frá kl. 00 til 06 á svæðinu sem fætt er frá Hrútatungu.

Þetta er meðal þess sem kem­ur fram í stöðuskýrslu frá sam­hæf­ing­ar­stöð al­manna­varna vegna óveðurs­ins sem gekk yfir landið 10. til 12. des­em­ber og eftirköst þess.

Þar segir að reynt verði að halda rafmagni inni þar sem hægt er vegna ástandsins í Hrútatungu og að lögð verði áhersla á svæði sem ekki eru með hitaveitu.

Að öllum líkindum verður rafmagn á Hvammstanga og Laugarbakka en það gætu orðið rafmagnstruflanir þar. Sama á við um notendur sem tengdir eru við Glerárskóga á Vesturlandi.

Enn eru nokkrar bilanir í dreifikerfi Rarik og búast má við truflunum á afhendingu rafmagns á meðan ástandið varir. 

Enn fremur segir að töluvert eignatjón hafi orðið vegna veðursins og muni taki nokkurn tíma að taka það saman og ólíklegt að allt sé komið í ljós.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert