„Rukkum ekki fyrir einstaka útköll“

Þór Þorsteinsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
Þór Þorsteinsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar. mbl.is/Sigurður Bogi

„Í sjálfu sér rukkum við ekki fyrir einstaka útköll, enda er það algert skilyrði að fólk geti beðið um aðstoð án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að fá milljóna króna reikning.“

Þetta segir Þór Þorsteinsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, í samtali við mbl.is. Um 300 björgunarsveitarmenn sinntu útkalli á 57 tækjum í gærkvöldi og í nótt vegna hóps ferðamanna á vegum íslensks ferðaþjónustufyrirtækis sem lenti í hrakningum við rætur Langjökuls í gær.

Gul veðurviðvörun var í gildi fyrir landið allt, auk þess sem óvissustigi hafði verið lýst yfir á Suðvesturlandi. Samkvæmt heimildum mbl.is var um að ræða ferðaþjónustufyrirtækið Mountaineers of Iceland, sem héraðsdómur gerði að greiða 700 þúsund krónur í bætur til ástralskra hjóna vegna verulegs gáleysis leiðsögumanna í ferð á vegum fyrirtækisins í janúar 2017.

Stærsti kostnaðurinn ekki einstaka útkall

„Það er ekki okkar að vera að setja einhvern mælikvarða á slíkt, hversu glæfralegt eitthvað er,“ segir Þór. „Við sinnum bara útköllum. Það er ekkert annað að gera.“

Þá bendir Þór á að mikilvægt sé að hafa í huga að stærsti kostnaðurinn felist í því að halda úti starfsemi Landsbjargar almennt, en ekki í einstaka útköllum. „Aðalatriðið er að það er það að vera til, eiga þennan búnað og tæki sem ekki klikka og þjálfaðan og menntaðan mannskap, það er það sem kostar, en ekki einstaka útkall.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert