Ruddi heiðina fyrir starfsmenn sína og vini

Finnur Aðalbjörnsson, eigandi fyrirtækjanna Finnur ehf. og Motul á Akureyri, gerði sér lítið fyrir og ruddi Öxnadalsheiðina upp á sitt einsdæmi á miðvikudag eftir að hafa fengið leyfi til þess frá Vegagerðinni.

Ástæðan var sú að starfsmenn hans hjá Motul voru á leiðinni á olíusýningu erlendis, auk þess sem starfsmenn frá Finni ehf. voru á leiðinni í vinnuferð. Voru þeir strandaglópar fyrir norðan sökum óveðursins.  

Þar að auki nýttu félagar hans, sem voru á leiðinni á EM í handbolta, sér framtakið, ásamt fullorðnum manni sem þurfti að komast til sænskra sérfræðinga fyrir sunnan sem voru bara á landinu í gær. Þess má geta að Finnur ehf. er verktakafyrirtæki sem sinnir m.a. snjómokstri. 

Dráttarvél Finns á ferðinni á Öxnadalsheiði.
Dráttarvél Finns á ferðinni á Öxnadalsheiði. Ljósmynd/Aðsend

22 bílar á eftir honum

Í upphafi ætluðu bara fjórir jeppar að aka á eftir Finni, sem ruddi heiðina á stórri 400 hestafla Fendt-dráttarvél sinni með snjóblásara, en það átti eftir að breytast. „Ég taldi alla vega 22 þegar ég var kominn í Skagafjörð þegar þeir kvöddu mig. Þetta hefur örugglega kvisast út,“ segir Finnur.

Hann hafði ekki viljað að menn töluðu um framtakið fyrir fram því hann vildi ekki fá einhverja 100 bíla á eftir sér í kolbrjáluðu veðri. „Ég ætlaði ekki að gera þetta „af því bara“. Þetta hefði alveg getað farið illa. Það var mjög slæmt veður, mjög hvasst og ófærðin mikil og skafrenningur. Þetta var algjört skítaveður.“

Aðspurður segir Finnur að menn hafi verið mjög þakklátir fyrir ruðninginn eftir á, bæði hringdu menn í hann og sendu honum skilaboð.

Frá ferðalaginu um Öxnadalsheiði.
Frá ferðalaginu um Öxnadalsheiði. Ljósmynd/Aðsend

Ellefu klukkustunda ferðalag

Ferð hans yfir Öxnadalsheiðina fram og til baka hófst um klukkan 16 á miðvikudag og var Finnur kominn aftur heim til sín um þrjú um nóttina, eða ellefu klukkustundum síðar. Leiðin til baka gekk hraðar fyrir sig. Þurfti hann þó að hjálpa sjö bílum, þar af einum fólksbíl.

„Þetta gekk allt mjög vel. Ég var alveg stressaður yfir þessu. Öftustu bílarnir pössuðu að enginn yrði eftir og ég var alltaf í símasambandi við þá. Þetta voru alvörumenn á ferð, ekki neinir bjánar,“ greinir hann frá.

Finnur Aðalbjörnsson.
Finnur Aðalbjörnsson. mbl.is/Sigurður Bogi
Hálka og snjór er á Öxnadalsheiði.
Hálka og snjór er á Öxnadalsheiði. Mynd/Skjáskot
mbl.is