Fer yfir 45 m/s á Kjalarnesi

Ljósmynd/Landsbjörg

Vetrarfærð er um mestallt land. Vegir eru víða ófærir eða lokaðir á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi eftir nóttina og víða má reikna með slæmu ferðaveðri í dag. Strætó hefur fellt niður einhverjar ferðir og eins er allt flug Flugfélags Íslands í athugun.

Á Vestfjörðum eru vegir víðast ófærir eða lokaðir og enn er slæmt veður og óvíst um mokstur. Vegurinn um Þröskulda er lokaður, Miklidalur, Hálfdán og Steingrímsfjarðarheiði. Eins eru Flateyrarvegur og vegurinn um Súðavíkurhlíð lokaðir vegna snjóflóðahættu.

Mosfellsheiði er ófær og Vegagerðin varar við hvassviðri á Kjalarnesi en það fer yfir 45 metra á sekúndu í hviðum.

Ófært er á sunnanverðu Snæfellsnesi og mjög hvasst. Einnig er ófært á Laxárdalsheiði og víða þæfingsfærð eftir nóttina. Vegurinn um Bröttubrekku og Holtavörðuheiði er lokaður.

Á Norðurlandi eru vegir víða þungfærir eða ófærir og fjallvegir lokaðir. Vegir um Vatnsskarð, Þverárfjall og Öxnadalsheiði eru lokaðir og eins eru Siglufjarðarvegur og Ólafsfjarðarmúli lokaðir vegna snjóflóðahættu.

Þungfært er á Fjarðarheiði en annars víða snjóþekja og snjókoma á Austurlandi. Á Suðausturlandi er lokað frá Kirkjubæjarklaustri að Jökulsárlóni vegna óveðurs. Á Suðurlandi er víða ófært eða þungfært eftir nóttina í uppsveitum en unnið að mokstri. Lyngdalsheiði er lokuð vegna veðurs.

Gul viðvörun er í gildi á höfuðborgarsvæðinu.
Gul viðvörun er í gildi á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert