Frusu fastir við veginn

Facebook-síða Kyndils

Nóttin var fremur róleg hjá björgunarsveitum landsins miðað við undanfarna daga og nætur að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Slysavarnafélagsins Landsbjargar. 

Björgunarsveitarfólk var kallað út á Skagaströnd vegna foktjóns í sumarbústöðum og eins til að aðstoða fólk í vanda á vegum úti.

Björgunarsveitin Kyndill á Kirkjubæjarklaustri stóð vaktina við vegalokun í gær og fram á kvöld. Um kvöldmatarleytið voru ræstir út fleiri menn vegna ferðmanna í vandræðum við Núpa en þeir komu að austan. Ferðalöngunum var komið á hótel en bílarnir skildir eftir þar sem þeir höfðu frosið fastir við veginn vegna hita frá vélarrúmi. Á þessum tíma mældust 50 metrar á sekúndu í hviðum við Lómagnúp. Þetta kemur fram í Facebook-færslu björgunarsveitarinnar.

Gul og appelsínugul viðvörun verður í gildi um allt land í dag, þriðjudaginn 14. janúar. Eins og staðan er núna ekur Strætó aðeins á Suðurnesjum og milli Reykjavíkur og Selfoss. Allur annar akstur á landsbyggðinni fellur niður vegna veðurs og ófærðar.

Stjórnstöð Strætó fylgist náið með stöðunni og tilkynnir um frávik sem kunna að verða á akstri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert