„Maður er eiginlega í sjokki núna“

Frá Flateyri. Myndin er úr safni.
Frá Flateyri. Myndin er úr safni. mbl.is/Helgi

„Það er í lagi með alla já; það er bara taugveiklun og „flassbakk“. Held að það sé mín sterkasta upplifun núna,“ segir Steinunn Guðný Einarsdóttir, íbúi á Flateyri, í samtali við mbl.is. Hún var stödd á heimili foreldra sinna þegar mbl.is náði af henni tali í nótt, þar sem hún bjó fyrir tæpum aldarfjórðungi þegar stórt snjóflóð féll á byggðina á Flateyri. 

„Ég er komin inn í mömmu og pabba hús þar sem ég bjó níutíu og fimm og það heyrist miklu meira í veðrinu heldur en í mínu húsi — ég er bara komin tuttugu og eitthvað ár aftur í tímann,“ segir Steinunn. 

Heyrði miklar drunur

Aðspurð segir hún að fyrra flóðið hafi fallið nánast á slaginu 23 í gærkvöldi. Hún kveðst hafa fengið símtal frá móður sinni rétt rúmlega ellefu. „Hún segir mér að brunakerfið í bátnum þeirra sé farið í gang og biður manninn minn um að koma. Þá kemur maðurinn minn hlaupandi niður og hann segist hafa heyrt svaka drunur og snjófjúk,“ segir Steinunn. Þau hafi fljótlega áttað sig á því að snjóflóð hafi fallið. 

Maður Steinunnar, sem er björgunarsveitarmaður, fór út með öðrum björgunarsveitarmanni til að kanna málið og fljótlega kom í ljós að öll litla bryggjan var farin eins og hún lagði sig að sögn Steinunnar 

Bíllinn kominn á hvolf

Skömmu síðar heyrði hún hvell, en þá hafði annað flóð fallið. Hún segir að fjölskyldubíllinn hafi m.a. verið kominn á hvolf við hliðina á húsinu. Hún hafði þá samband við manninn sinn sem sneri til baka og þau fóru m.a. í að aðstoða nágrannakonu þeirra og börnin hennar. Steinunn segir að snjór hafi farið inn í hús nágrannans og fleiri bílar hafi farið á hvolf í hamförunum, svo mikill var krafturinn. 

Í framhaldinu fór hún með tvo unga syni sína, sem eru 8 og 4 ára gamlir, heim til foreldra hennar, sem fyrr segir. „Maður er eiginlega í sjokki núna,“ segir Steinunn. 

Getur ekki sofnað

Spurð út í snjóflóðavarnargarðana segir Steinunn að hún hafi ekki reiknað með því að svona mikill snjór myndi ná að frussast yfir þá og til byggðar með þeim afleiðingum að snjórinn myndi skella á byggingum. „Það er kominn rosa mikill snjór og upp að görðunum örugglega hinum megin við, þar sem flóðið kemur. Svo er bara eins og við vitum, svaka „power“ í þessum flóðum.“

Steinunn tekur fram að hún hafi ætlað að skoða aðstæður með föður sínum í nótt „ef ég get eitthvað séð, það er skítaveður. En ég get ekki sofnað,“ segir hún að lokum. 

mbl.is