Mikill léttir við hræðilegar aðstæður

Frá Flateyri í morgun. Veður þar er enn mjög slæmt.
Frá Flateyri í morgun. Veður þar er enn mjög slæmt. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

„Þetta voru hræðilegar aðstæður,“ segir björgunarsveitarmaðurinn Ívar Kristjánsson. Hann var einn þeirra sem kom að því að bjarga unglingsstúlku úr snjóflóði sem féll á Flateyri seint í gærkvöldi.

Tvö flóð féllu á Flateyri og eitt á Súgandafirði í gærkvöldi. Varnargarðurinn á Flateyri varð þess valdandi að flóðin fóru út í sjó að mestu leyti. Það skvettist úr öðru flóðinu yfir varnargarðinn sem varð þess valdandi að unglingsstúlka lá föst undir flóðinu í 40 mínútur áður en henni var bjargað.

Ívar segir að að minnsta kosti 14 björgunarsveitarmenn af Flateyri hafi komið að því að bjarga stúlkunni undan flóðinu. Móður stúlkunnar og tveimur yngri systkinum hennar tókst að komast út úr húsinu. 

Hann segir að aðstæður hafi verið hræðilegar en að sama skapi voru björgunarsveitarmenn fegnir þegar þeim tókst að losa stúlkuna undan snjónum.

„Það var auðvitað mikill léttir þegar við náðum henni út,“ segir Ívar. Stúlkan var flutt með varðskipinu Þór til Ísafjarðar en hún hlaut ekki alvarlega áverka.

Björgunarsveitarmenn funduðu í morgun og Ívar segir að þar sé beðið eftir því að varðskipið Þór ferji fólk og birgðir í land með léttbátum. Aðstæður eru erfiðar en appelsínugul veðurviðvörun er í gildi á Vestfjörðum.

„Ég sé um að moka snjóinn í bænum og það eru tvær götur færar sem ég sé um að halda opnum. Allt annað er kolófært og það er bókstaflega allt á kafi.“

mbl.is