Mokuðu snjónum úr Ólafstúni 14

Björgunarsveitarmenn að störfum við Ólafstún 14 í dag.
Björgunarsveitarmenn að störfum við Ólafstún 14 í dag. mbl.is/Hallur Már

Björgunarsveitir luku í dag við mokstur á snjó úr húsinu í Ólafstúni 14 á Flateyri en annað snjóflóðið úr fjöllunum við bæinn á þriðjudagskvöldið fór yfir húsið og færði alla persónulega muni fjölskyldunnar þaðan. Auk þess byrgði björgunarsveitarfólk fyrir glugga og lokaði húsinu.

Þetta kem­ur fram í stöðuskýrslu frá sam­hæf­ing­ar­stöð al­manna­varna vegna snjóflóða á Flat­eyri og í Súg­andafirði.

Alma Sóley Ericsdóttir Wolf, 14 ára, var grafin und­ir snjófargi í her­bergi sínu í Ólafstúni 14 í um það bil fjöru­tíu mín­út­ur þar til björg­un­ar­sveit­ar­menn náðu til henn­ar. Móðir hennar og systkini komust út af sjálfsdáðum.

Björgunarsveitarfólk hefur verið að störfum á Flateyri í dag og aðstoðað íbúa við snjómokstur. Lögð hefur verið áhersla á að moka snjó frá húsum og hreinsa þök þar sem von er hláku næstu daga.

Áhöfn á björgunarbát björgunarsveitarinnar á Flateyri hefur unnið með áhöfn varðskipsins Þórs við að hreinsa upp lausamuni sem eru á floti í og við höfnina. Hluti björgunarsveitarfólks sem sent var frá höfuðborgarsvæðinu fyrr í vikunni fór með flugi til baka síðdegis í dag. Sjö manns verða áfram á Flateyri til stuðnings við björgunarsveitir á svæðinu vegna veðurspár á sunnudaginn. 

Appelsínugul viðvörun verður í gildi á Vestfjörðum á sunnudag en spár gera ráð fyrir suðaustanstormi með mikilli rigningu eða slyddu og hlýnandi veðri.

mbl.is/Hallur Már
mbl.is