Atkvæðagreiðslan farið vel af stað

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, á baráttufundi í síðasta mánuði.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, á baráttufundi í síðasta mánuði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Atkvæðagreiðsla um boðun verkfallsaðgerða hjá allt að 18 þúsund félagsmönnum BSBR, sem hófst í morgun, hefur farið vel af stað.

„Ég er búin að heyra í nokkrum aðildarfélögum og það eru allir á því að þetta hafi farið vel af stað,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. Hún nefnir að félögin hvetji fólk til að taka þátt og að þau séu með upplýsingar á sínum vefsíðum.

Atkvæðagreiðslan hjá þrettán félögum af sautján er rafræn. „Það er mjög mikilvægt að allir taki þátt vegna þess að við þurfum helmingsþátttöku til þess að atkvæðagreiðslan sé gild,“ segir hún en þrengri skilyrði þess efnis eru hjá opinberum starfsmönnum en á almennum vinnumarkaði. Atkvæðagreiðslunni lýkur á miðvikudagskvöld og verða úrslit kynnt í hádeginu á fimmtudaginn.

Enginn fundur verið boðaður 

Enginn fundur hefur verið boðaður hjá BSRB og viðsemjendum í þessari viku. Í viðræðunum á eftir að ganga frá styttingu vinnuvikunnar í vaktavinnu, jöfnun launa á milli markaða, launaþróunartryggingu og ávinnslu orlofs. „Svo er auðvitað stóra málið sem er launaliðurinn sem er hjá hverju aðildarfélagi fyrir sig.“

„Ótrúlega langur tími“

Aðspurð segir Sonja Ýr að kjaraviðræðurnar gangi hægar en hún átti von á. Hún segir skilaboðin frá félagsmönnum eftir samtöl við aðildarfélög vera skýr um að grípa þurfi til aðgerða. Tæpt ár er liðið síðan samningar losnuðu, eða 31. mars 2019. „Ég held að margir átti sig ekki á því hvað það er ótrúlega langur tími í þessu samhengi,“ greinir hún frá. „Við erum að tala um kjarabætur fólks sem það þarf að bíða eftir í allan þennan tíma á meðan útgjöld eru að hækka.“

Verk­fallsaðgerðir gætu haf­ist 9. mars og ótíma­bundið alls­herj­ar­verk­fall 15. apríl ná­ist samn­ing­ar ekki fyr­ir þann tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert