Fylgjandi því að trúnaði verði aflétt

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra, sagði á Alþingi í dag að sér þætti skortur á gagnsæi raforkusamnings milli Landsvirkjunar og Rio Tinto slæmur. Hún er fylgjandi því að trúnaði verði aflétt af samningnum en kveðst ekki geta beitt sér sérstaklega fyrir því að það gerist.

Þetta er meðal þess sem kom fram í svari Þórdísar við fyrirspurn Halldóru Mogensen, þingmanns Pírata, sem spurði um raforku til stóriðju.

Í tilkynningu frá Landsvirkjun í gær var greint frá því að formlega hefði verið óskað eftir því við Rio Tinto, eig­anda ál­vers­ins í Straums­vík, að trúnaðar­á­kvæðum verði aflétt af raf­magns­samn­ingi fyr­ir­tækj­anna þannig að hægt verði að ræða op­in­ber­lega um meg­in­efni samn­ings­ins.

Ítrekað hefur verið haldið fram af forsvarsmönnum álveranna og Samorku að orkuverð til stóriðju á Íslandi sé í besta falli í meðallagi en sama fólk hefur ítrekað að trúnaður verði að gilda um raforkuverð þar sem orkufyrirtækin á Íslandi séu í samkeppni við aðra markaði um að draga til sín stóriðjufyrirtæki. Þarna er verið að deila og drottna í krafti ófullkominna upplýsinga á markaði,“ sagði Halldóra og spurði hverjum slíkur upplýsingaskortur þjónaði.

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata.
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ég hef sagt það opinberlega nokkrum sinnum að ég vilji sjá meira gagnsæi og þess vegna hef ég fagnað því að þessi fyrirtæki virðast, alla vega í fjölmiðlum, vera opin fyrir því og nú vitum við af því að þessi beiðni hefur verið send formlega,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Það er mikið um ágiskanir og þeir sem búa yfir þessum upplýsingum eru bundnir trúnaði og geta þar af leiðandi ekki einu sinni sagt það sem þeir þó vita. Ég er þeirrar skoðunar að það væri gott fyrir umræðu á Íslandi að meira gagnsæi væri í þessum málum,“ bætti ráðherra við.

Hún myndi fagna því ef menn kæmust að þeirri niðurstöðu að birta annaðhvort samninginn í heild eða þá lykilþætti sem helst er rætt um. „Ég get sjálf í krafti minnar stöðu ekki gert kröfu um að það verði gert enda er þetta viðskiptalegur samningur á milli tveggja aðila,“ sagði ráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert