Andlát: Vigfús B. Jónsson bóndi á Laxamýri

Vigfús B. Jónsson.
Vigfús B. Jónsson.

Vigfús B. Jónsson, fyrrverandi bóndi á Laxamýri í Reykjahverfi í Suður-Þingeyjarsýslu og forystumaður í veiðimálum, lést á hjúkrunarheimilinu Hvammi á Húsavík, síðastliðinn fimmtudag. Hann var á 91. aldursári.

Vigfús var fæddur á Laxamýri 8. ágúst 1929. Foreldrar hans voru Jón H. Þorbergsson, búfræðingur og bóndi þar, og kona hans Elín Vigfúsdóttir. Hann stundaði nám í héraðsskólanum á Laugum, gagnfræðaskólanum á Húsavík og í Jæren-Folkehögskole í Noregi.

Vigfús kenndi tvo vetur í Búðardal áður en hann gerðist bóndi á Laxamýri árið 1953. Þar byggði hann nýbýlið Laxamýri 2.

Hann var virkur í félagsmálum sveitar sinnar og héraðs sem formaður Ungmennafélagsins Reykhverfungs, hreppsnefndarmaður, oddviti, hreppstjóri og sýslunefndarmaður. Hann var í stjórn og formaður Veiðifélags Laxár og Landeigendafélags Laxár og Mývatns. Þá sat hann í stjórn Landssambands veiðifélaga og var formaður um árabil. Vigfús gegndi trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn og tók nokkrum sinnum sæti á Alþingi sem varaþingmaður fyrir Norðurlandskjördæmi eystra.

Eftirlifandi eiginkona Vigfúsar er Sigríður Atladóttir, húsfreyja frá Hveravöllum í Reykjahverfi. Þau eignuðust fjögur börn, Elínu, Atla, Sigríði Steinunni og Jón Helga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert