Stefnir í ótímabundið verkfall á mánudag

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar.
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekkert bendir til annars en að ótímabundið verkfall Eflingar í nokkrum sveitarfélögum í nágrenni höfuðborgarinnar hefjist á hádegi á mánudag. Þetta segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar. Sveitarfélögin sem um ræðir eru Kópavogur, Seltjarnarnes, Mosfellsbær, Hveragerði og Ölfus, en Samband íslenskra sveitarfélaga fer með samningsumboð fyrir þeirra hönd.

Félagsmenn Eflingar samþykktu fyrir viku verkfallsboðun með yfirgnæfandi meirihluta.

Síðasti fundur í kjaradeilu Eflingar og sveitarfélaganna fór fram í gær en Viðar segir viðræður hafa gengið nokkuð treglega hingða til. Stefnt sé að því að boða til annars fundar um helgina, þá væntanlega á morgun.

Ljóst er að verkföllin munu hafa töluverð áhrif á þjónustu í sveitarfélögunum sem um ræðir. Á heimasíðu Kópavogsbæjar segir að áhrifa verkfallanna muni meðal annars gæta í grunnskólum, þar sem frímínútnagæsla, stuðningur við börn með sérþarfir og ræsting muni skerðast til muna. Þá mun frístundagæsla falla niður og mötuneyti verður lokað í öllum skólum. Þó verður enn boðið upp á mat í Smáraskóla sem er með aðkeyptan mat.

Fundað stíft í Karphúsinu

Fundi Eflingar og Reykjavíkurborgar lauk um kvöldmatarleytið í gær en ekki hefur verið boðað til nýs fundar. „Þessi bolti er núna hjá borginni,“ segir Viðar, en stefnt er að því að funda á morgun.

Þótt Efling hafi ekki fundað með viðsemjendum sínum í dag hefur Karphúsið, hús ríkissáttasemjara, verið þéttsetið í dag. Fundir standa nú yfir hjá BSRB, Sjúkraliðafélagi Íslands og Sameyki, en félögin þrjú eiga í viðræðum við ríki, Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög. Starfsmenn BSRB munu að óbreyttu leggja niður störf á mánudag og þriðjudag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert