„Nú er bara að keyra þetta í gang“

Kári Stefánsson ætlar að éta ofan í sig það sem …
Kári Stefánsson ætlar að éta ofan í sig það sem hann áður sagði. mbl.is/​Hari

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segist ætla að éta ofan í sig fyrri orð sín um að ákvörðun hans að hætta við skimanir fyrir kórónuveirunni sé endanleg. „Og það er, skal ég segja þér, ekki uppáhaldssunnudagsmaturinn minn, að éta orðin mín,“ segir hann auðmjúkur í samtali við mbl.is.

En hann sagði það endalega ákvörðun að ekkert yrði af hans framlagi í kjölfar þess að vísindasiðanefnd og Persónuvernd sögðu skimanir og rannsóknir á stökkbreytingu veirunnar leyfisskyldar. Sagðist hann ekki ætla að sækja um leyfi fyrir skimunum, enda teldi hann að um væri að ræða þátttöku í klínískri vinnu en ekki vísindarannsókn.

Eftir að hafa sest niður með vísindasiðanefnd og farið yfir málið kom hins vegar í ljós að ekki væri um leyfisskylda aðgerð að ræða og hefur Kára því snúist hugur. Hann ætlar að framkvæma skimanir fyrir kórónuveirunni og jafnframt gera rannsóknir á mögulegum stökkbreytingum veirunnar.

„Nú er bara að keyra þetta í gang,“ segir Kári og vonast til að skimanir geti hafist strax um miðja þessa viku, enda stöndum við frammi fyrir óhugnanlegum faraldri. Hann segir alla verða að leggjast á eitt í baráttunni gegn veirunni og þetta sé hans framlag.

Þá tekur hann fram að hann beri mikla virðingu fyrir því fólki sem starfar hjá vísindasiðanefnd þótt stundum hafi kastast í kekki á milli þeirra. Þar sé unnið gott og mikilvægt starf.

Heilbrigðisráðherra og sóttvarnalæknir eru sammála um að framlag Kára sé mikilvægt framlag til lýðheilsu og sóttvarna og landlæknir telur það skipta miklu máli bæði innanlands og fyrir heimsbyggðina alla að kortleggja ferðir þessa vágests, líkt og hún orðaði það í Silfrinu í morgun.

mbl.is