Mehamn-réttarhöldum frestað á ný

Gísli Þór Þórarinsson heitinn var hvers manns hugljúfi og aufúsugestur …
Gísli Þór Þórarinsson heitinn var hvers manns hugljúfi og aufúsugestur á hverju heimili eftir því sem mbl.is fékk að heyra í heimsókn til Mehamn í júní í fyrra. Aðalmeðferð í máli þeirra hálfbræðra, Gísla Þórs og Gunnars Jóhanns Gunnarssonar, hefur nú verið frestað öðru sinni, að þessu sinni vegna kórónuveirufaraldurs. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Héraðsdómur Austur-Finnmerkur í Vadsø í Noregi hefur frestað aðalmeðferð í máli Gunnars Jóhanns Gunnarssonar um óákveðinn tíma, líklega fram á haust, til að draga eftir megni úr smithættu sem augljóslega yrði til staðar í réttarhöldum sem draga munu að sér fjölmiðlafólk hvaðanæva.

Ritari dómstólsins staðfesti þetta við mbl.is í dag og sagði allar líkur á að aðalmeðferðin færi fram eftir 1. september til að hafa varann á.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem flutningi málsins er frestað, áður var ætlunin að reka málið fyrstu vikuna í desember í fyrra en Tor­stein Lindquister héraðssaksóknari sá þá mikla meinbugi á ákærunni og vildi bæta við hana. Var málflutningi þá frestað til 23. mars og tekur nýja frestunin til þeirrar dagsetningar.

Ákærður fyrir fjölda annarra brota

Gunnar Jóhann, sem setið hefur í gæsluvarðhaldi síðan 27. apríl í fyrra, er ákærður fyrir að ráða hálfbróður sínum, Gísla Þór Þórarinssyni, bana með haglabyssuskoti snemma morguns 27. apríl. Auk þessa tekur ákæran, eins og mbl.is greindi frá í janúar, til þess að Gunnar Jóhann hafi haft í hótunum við hálf­bróður sinn dag­ana fyr­ir and­lát hans og eins fyrr­ver­andi heit­konu sína og barn­s­móður, Elenu Unde­land. Til­tek­ur ákær­an sér­stak­lega Snapchat-mynd­skeið sem Gunn­ar sendi hálf­bróður sín­um og lét þar í veðri vaka hvað honum gengi til ætlunar.

Alls er ákær­an í sex liðum og er Gunn­ar í þeim fjór­um sem eft­ir standa ákærður fyr­ir hús­brot á heim­ili Gísla Þórs, brot á nálg­un­ar­banni gagn­vart hon­um, að hafa tekið bif­reið hans ófrjálsri hendi eft­ir átök þeirra og ekið henni und­ir áhrif­um áfeng­is og am­feta­míns þegar hann fór af vett­vangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert