Akureyringar aðstoða Húsvíkinga

22 eru í sóttkví vegna ferðamannsins sem lést á Húsavík …
22 eru í sóttkví vegna ferðamannsins sem lést á Húsavík sem reyndist með kórónaveiruna.

Heilbrigðisstarfsfólk frá Akureyri mannar vaktir á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík eftir að 19 starfsmenn stofnunarinnar fóru í sóttkví í dag. Alls eru 22 einstaklingar í sóttkví eftir að hafa sinnt veikum ungum ferðamanni sem lést þar í gær en hann reyndist smitaður af kórónuveirunni. Af þessum fjölda eru meðal annars lögreglu- og sjúkraflutningamenn.  

„Við getum áfram sinnt bráðaþjónustu því við erum áfram með lækna að störfum. Við færum líka til starfsfólk sem hefur verið í öðrum störfum. Á meðan þessir einstaklingar sem eru í sóttkví eru einkennalausir geta þeir áfram sinnt starfi sínu í gegnum síma og tölvu,“ segir Jón Helgi Björnsson, forstjóri stofnunarinnar. 

Enginn af þeim sem eru í sóttkví hefur sýnt einkenni kórónuveirunnar enda skammur tími liðinn frá því fólkið komst í návígi við manninn. Leigt var lítið hótel á Húsavík fyrir þá starfsmenn sem ekki geta verið heima hjá sér í sóttkví enda fjölskylduaðstæður misjafnar, að sögn Jóns.

Loka móttökum og leysa málin símleiðis  

Nú þegar hefur verið brugðist við ástandinu til að hefta útbreiðsluna á heilbrigðisstofnuninni. Öllum opnum móttökum hefur verið lokað og reynt er í lengstu lög að leysa sem mest í gegnum síma eða fjarþjónustu til að lágmarka sem allra mest snertingu við einstaklinga. 

Jón segir að maðurinn sem lést hafi verið vel á sig kominn, ungur Ástrali sem hafi verið á ferðalagi hér með unnustu sinni. „Þessi einkenni sem menn voru að glíma við þarna voru ekki þess eðlis að menn álitu að það væri vandamálið sem hann átti við að eiga,“ segir Jón spurður hvort maðurinn hafi sýnt einkenni COVID-19-sjúkdómsins sem kórónuveiran veldur. „En ekki er vitað nákvæmlega hvað kom raunverulega fyrir fyrr en athugun verður gerð á því,“ segir hann.  

Spurður hvernig staðan leggist í hann svarar hann því til að bjartsýni sé það eina sem er í boði í þessari glímu við kórónuveiruna. Hann bætir við að lokum að vorið sé á næsta leiti og það sé alltaf gleðilegt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert