Heilsumiðstöðin tilbúin að hlaupa undir bagga

Ásdís Halla Bragadóttir, framkvæmdastjóri Heilsumiðstöðvarinnar.
Ásdís Halla Bragadóttir, framkvæmdastjóri Heilsumiðstöðvarinnar. mbl.is/Ásdís

Heilsumiðstöðin í Ármúla er til taks til að létta álagi af Landspítala eða öðrum stofnunum í baráttunni gegn kórónuveirunni. Þetta segir Ásdís Halla Bragadóttir, framkvæmdastjóri Heilsumiðstöðvarinnar. 

Innan Heilsumiðstöðvarinnar eru annars vegar Hótel Ísland og hins vegar Klíníkin sem er í eigu lækna og hjúkrunarfræðinga og rekur fjórar skurðstofur. „Við létum vita af því þegar við sáum að faraldurinn yrði talsverð áskorun, að við værum boðin og búin að hlaupa undir bagga,“ segir Ásdís.

Nokkrar hugmyndir hafi verið viðraðar í þeim efnum. Þannig geti hótelið tekið við fólki með veiruna eða ættingjum fólks í sóttkví sem ekki á í önnur hús að venda. Eins sé mögulegt að framkvæma aðgerðir á skurðstofum Klíníkurinnar. „Það hefur þurft að fresta aðgerðum [á Landspítala] sem sumar eru brýnar. Því bauð Klíníkin spítalanum aðstoð til að létta á biðlistum.“

Í einu af herbergjum hótelsins hefur svæfingarvél hefur verið tengd …
Í einu af herbergjum hótelsins hefur svæfingarvél hefur verið tengd við rúmgaflinn og með henni er súrefni og sog leitt í hann. Ljósmynd/Aðsend

Ekki hefur reynt á það enn og segir Ásdís ómögulegt að spá fyrir um hvort á því þurfi að halda. „Það veit enginn hvert þetta stefnir. En það er okkar samfélagslega skylda að hjálpa til ef á þarf að halda.“

Alma Möller landlæknir nefndi á blaðamannafundi almannavarna í dag að Klíníkin, sem og önnur einkarekin heilbrigðisfyrirtæki á borð við Orkuhúsið, hefðu boðið fram krafta sína ásamt sjúkrahúsinu á Akureyri.

„Almannavarnir könnuðu aðbúnaðinn hjá okkur, hvort við hefðum varaaflstöð, gætum breytt loftræstikerfinu úr yfirþrýstingi í undirþrýsting og hvort að nægilegt rafmagn væri í herbergjum fyrir öndunarvélar og önnur nauðsynleg tæki,“ segir Ásdís og bætir við að aðstaðan hafi staðist allar kröfur. „Þegar við fórum að byggja upp aðstöðuna lögðum við mikið upp úr því að hafa hana sem öruggasta.

Því til viðbótar eru í Heilsumiðstöðinni svæfingarvélar og súrefni sem hefur verið notað fyrir fólk í aðgerð. „Og svo auðvitað gott fagfólk. Það fer engin slík starfsemi fram án framúrskarandi fagfólks og ánægjulegt er að það er allt boðið og búið að leggja sitt af mörkum.“

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert