Skutlast og skjótast fyrir samborgara sína

Þessa dagana er umferð með minnsta móti og því ætti …
Þessa dagana er umferð með minnsta móti og því ætti ekki að taka langan tíma í að gera samborgara sínum góðverk. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ef þú ert heima í sóttkví og þarft aðstoð samborgara þinna eins og til dæmis að fá aðföng send heim til þín er um að gera að setja sig í samband við hópinn Aðstoð í sóttkví á Facebook.

Hugmyndin með hópnum er að fólk geti óskað eftir aðstoð samborgara sinna um lítil viðvik eins og að skjótast út í búð og annað þess háttar. Hópurinn var stofnaður í vikunni og þegar hefur fólk boðið fram aðstoð sína um að skutlast. Þeir sem vilja nýta sér þetta eru hvattir til að hafa samband beint við fólk á síðunni. 

„Ég þekki marga sem eru í sóttkví og hafa veikst. En það sem gerði útslagið var að biðtíminn eftir að fá matvörur heim var orðinn nokkrir dagar. Það er erfitt fyrir fólk sem er fast heima og kannski litið til í ísskápnum. Ég vildi því stofna hópinn til að auðvelda fólki að standa sig heima í sóttkví,“ segir Ómar R. Valdimarsson stofnandi hópsins.  

Ómar segir misjafnt hvernig félagsnetið er í kringum fólk. Sumir eiga fjölmarga að á meðan aðrir búa ekki eins vel. Á þessum tímum er mikilvægt að við sem samborgarar sýnum ábyrgð, segir hann. „Það eru hagsmunir okkar allra að fólk geti staðið sig vel í sóttkví og borgaraleg skylda okkar að láta þetta ganga allt vel. Hugmyndin er sú að fólk geti treyst hvort öðru jafnvel þótt það þekkist ekki neitt,“ segir hann. 

Hann bindur vonir við að fólk geti nýtt sér þessa þjónustu en að sjálfsögðu er ekki krafist greiðslu fyrir viðvikin. Hann segir að kannski núna reyni á marga að þiggja hjálp. Það er mikilvægt að gera það því ef fólk gerir það ekki mætti líkja því við að keyra á óþekktum slóðum og neita að líta á kortið. 

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert