Gleymir því seint að liggja inni á A7

Starfsmaður Landspítalans í hlífðarbúnaði.
Starfsmaður Landspítalans í hlífðarbúnaði. Ljósmynd/Landspítalinn/Þorkell Þorkelsson

Eyjamaðurinn Arnar Richardsson er á batavegi eftir að hafa verið á sjúkrahúsi eftir að hafa smitast af kórónuveirunni. Í facebookfærslu á síðunni Heimakletti lýsir hann því sem hann gekk í gegnum eftir að hann veiktist.

Arnar, sem er með astma, greindist með veiruna 22. mars eftir að hafa haft einkenni í um tíu daga á undan. Í fyrstu var hann með hefðbundinn hósta en síðan veiktist hann meira, þurfti að liggja fyrir og átti erfitt með að tala. 29. mars virtist hann vera að jafna sig en daginn eftir vaknaði hann mjög andstuttur. Hann var fluttur á spítala þar sem kom í ljós að hann var með bólgur í báðum lungum. Í framhaldinu fór hann með sjúkraflugi til Reykjavíkur og var lagður inn á deild A7 á Landspítalanum.

Starfsfólk Landspítalans.
Starfsfólk Landspítalans. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell

Hrósar starfsfólki Landspítala

„Að liggja inni á Landspítalanum deild A7 er lífsreynsla sem maður gleymir seint. Starfsfólk þar er ekki öfundsvert af að vinna í þessum aðstæðum og í öllum þessum hlífðarfatnaði,“ skrifar hann og lýsir því að hann hafi verið látinn gera öndunaræfingar á spítalanum. Efst í huga hans eftir dvölina á A7 er kærleikurinn og hugulsemin sem hann fann fyrir hjá sjúkraliðum og hjúkrunarfræðingum. „Þetta fólk er einstakt, að það skuli leggja sig í hættu við það eitt að þér líði betur er ómetanlegt og hreinlega ólýsanlegt.“

Hann bætir við að hann hafi verið fluttur „aftur á eyjuna fögru“. Heilsan sé öll að koma til og vonast hann til að vera orðinn fullfrískur eftir eina til tvær vikur. Hann endar færsluna með því að hvetja fólk til að hlýða Víði því kórónuveiran sé dauðans alvara.

Uppfært 12:25

Í fréttinni kom fram að Arnar hefði verið í öndunarvél en svo var ekki. Þetta hefur verið leiðrétt. 

Vestmannaeyjar.
Vestmannaeyjar. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert