Seinni aðgerðapakki kynntur um eða eftir helgi

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Seinni aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar vegna kórónuveirunnar verður kynntur um helgina eða eftir helgi. Áfram er unnið að því að setja hann saman. Þessar aðgerðir sem farið verður í eru jafnframt ekki þær síðustu sem gripið verður til vegna veirunnar, að sögn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. 

„Að þessu sinni erum við að skoða þá sem við teljum að hafi fallið milli skips og bryggju í fyrri pakkanum. Við erum að skoða ýmsa hluti, til dæmis stöðu námsmanna, stöðu sjálfstætt starfandi gagnvart hlutabótum o.fl.,“ segir Katrín án þess að útlista nánar hvaða aðgerðir verður farið í. 

Varðandi listamenn þá hefur um hálfum milljarði króna verið varið til skapandi greina og listamanna. „Það á eftir að skipta þá verulegu máli,“ segir hún. 

Hún tekur fram að ýmislegt sé að komast í framkvæmd núna sem fylgdi fyrsta aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar, eins og til dæmis brúarlánin svokölluðu. Núna er unnið að því að ganga frá þessum samningi milli Seðlabanka Íslands og fjármálaráðuneytisins. Það er á borði fjármálaráðuneytisins að klára það samkomulag.   

Útilokar ekki launalækkun

„Ég útiloka ekki að til frekari ráðstafana verði gripið,“ segir hún spurð hvort til greina komi að ráðamenn þjóðarinnar taki á sig launalækkun líkt og forsætisráðherra Nýja-Sjálands greindi frá nýverið. Þar lækka laun allra ráðherra og forsvarsfólks helstu opinberu stofnana um 20% í sex mánuði. 

Nýverið var ákveðið á Alþingi að launahækkun alþingismanna, ráðherra, ráðuneytisstjóra og æðstu embættismanna sem átti að taka gildi 1. júli, yrði frestað til 1. janúar 2021 vegna aðstæðna í samfélaginu.

Vonbrigði með ákvörðun forseta Bandaríkjanna

„Þetta eru aðvitað mikil vonbrigði og gagnrýnin er ekki réttmæt. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur svo sannarlega sýnt fram á sitt mikilvæga hlutverk á þessum tímum,“ segir Katrín um ákvörðun Donald Trump forseta Bandaríkjanna um að stöðva fjár­fram­lög til Alþjóðaheilbrigðismálastofn­un­ar­inn­ar. 

Hann vill gera það á meðan farið verður yfir það hvernig stofnunin hefði brugðist í bar­átt­unni við kór­ónu­veiruna og reynt að hylma yfir út­breiðsluna, að mati Trump. Fjöl­marg­ir þjóðarleiðtog­ar hafa gagn­rýnt ákvörðun hans.

„Ég vil vekja athygli á því að það sem við höfum verið að gera hér á Íslandi er í takt við ráðleggingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinar. Greina, rekja smit, beita sóttkví og einangra,“ segir Katrín. Þessar stöngu sóttvarnaaðgerðir hafa skilað okkur þeim árangri sem við búum við, segir hún enn fremur.  

mbl.is

Bloggað um fréttina