Þurfti að velja á milli þess að anda eða borða

Sylvía í herberginu þar sem hún hefur dvalið síðastliðinn mánuð. …
Sylvía í herberginu þar sem hún hefur dvalið síðastliðinn mánuð. Myndin sýnir ástandið akkúrat núna, hún í náttfötunum að borða snakk uppi í rúmi. Ljósmynd/Aðsend

Sylvía Ólafsdóttir hefur verið í einangrun inni í einu herbergi á heimili sínu í 31 dag, eða síðan hún fór í sýnatöku vegna gruns um kórónuveirusmit sem hún fékk síðan staðfest. Veikindin hafa verið upp og niður og þegar hún hélt að það versta væri yfirstaðið sló henni illa niður. Í dag á hún enn langt í land með að ná fullum bata, þó henni sé vissulega farið að líða betur.

„Á sunnudegi eftir greiningu hélt ég að mér væri farið að batna, það voru minni beinverkir og höfuðverkur og ég sleppti því verkjalyfjum þann dag og næsta. En svo á þriðjudagsmorgni fyrir páska var ég mjög slöpp og komin með höfuðverk sem var eins og að kljúfa höfuðið á mér í tvennt.

Þá játaði mig sigraða vinnulega séð, enda var ég þarna líka komin á þann stað að eiga erfitt með að tala vegna mæði,“ segir Sylvía en einkennin fyrstu tíu dagana voru bærileg, þannig séð, þó hún væri ofboðslega þreytt, með stöðuga hitavellu, beinverki, hósta og höfuðverk. Ásamt því að hafa litla matarlyst. En hún var engu að síður nánast í fullri fjarvinnu allan þann tíma.

En í kjölfar þess að hún játaði sig sigraða tóku við dagar þar sem hún svaf nánast allan sólarhringinn og það var ekki fyrr en rúmri viku síðar að hún fór að merkja einhverjar jákvæðar breytingar á líðan sinni. Þær hafa þó verið að gerast mjög hægt.

„Það er ekki nema síðustu 7 til 8 daga sem ég hef getað hlustað á bækur og horft á einhverja þætti eða myndir, fram að því var ég bara sofandi og heilalaus. Og ég hlæ að því að mér finnst eitthvað svo asnalegt að sjá fólk í sjónvarpsþáttum og myndum vera að koma nálægt hverju öðru, jafnvel faðmast. Furðulegt hvað maður aðlagast fljótt breyttum aðstæðum.“

Smitið skráð með óþekktan uppruna

Sylvía fékk niðurstöður úr sýnatöku sunnudagskvöldið 29. mars síðastliðinn, en hún fór í sýnatöku á föstudegi eftir nokkra skrýtna daga.

„Á þriðjudagsmorgni í vikunni áður var ég með flökurleika sem ég er ekki vön og smá hósta, á miðvikudeginum var ég ofboðslega þreytt eftir fjarvinnudaginn, mun þreyttari en ég á mér að vera og höfuðverk.“

Þrátt fyrir að hún væri ekki með hita ákvað hún engu að síður að senda skilaboð í gegnum Heilsuveru þar sem henni var tjáð þetta væri líklega ekki COVID-19. Daginn eftir var hún hálfónýt og var kominn með smá hita.

„Á fjarfundi hafði fólk afsakandi orð á því að ég liti frekar tuskulega út sem voru engar ýkjur. Eftir þennan vinnudag ætlaði ég að leggja mig en það endaði í 14 tíma blundi með kuldahrolli og svitaköstum til skiptis og mikilli vanlíðan.“ Sylvía sendi því aftur skilaboð í gegnum Heilsuveru og var boðuð í sýnatöku daginn eftir.

Sylvía hefur verið dugleg að sjá tækifæri í því ástandi …
Sylvía hefur verið dugleg að sjá tækifæri í því ástandi sem hefur skapast. Ljósmynd/Aðsend

Það var svo læknir sem hafði samband við Sylvíu og greindi henni frá niðurstöðunum og fór yfir allt sem hún þyrfti að gæta að varðandi heilsuna.

„Ég var aldrei neitt hrædd eða áhyggjufull, ég hef fengið slæma lungnabólgu áður án þess þó að fá hita og bjóst í versta falli við einhverju slíku. Mitt aðaláhyggjuefni var að tryggja öryggi 18 ára sonar míns, sem er astmasjúklingur, og 19 ára kærustu hans sem voru komin heim til mín nokkrum vikum áður þar sem heimavistarskólinn þeirra þurfti að loka vegna samkomubannsins. Ég fékk mjög góðar upplýsingar um hvernig við gætum hagað því að hafa mig í einangrun og þau í sóttkví á sama heimili.“

Sylvía hafði rétt lokið símtalinu við lækninn þegar smitrakningarteymið hafði samband við hana. „Þar sem ég hafði farið gríðarlega varlega í margar vikur á undan, bæði með handþvotti, sprittun og félagsforðun, var ekki nýkomin frá útlöndum og hafði ekki umgengist neinn með staðfest smit, þá var mitt smit merkt með óþekktan uppruna. Eftir á að hyggja mundi ég reyndar að ég hafði t.d. farið og hlaðið bílinn minn á hleðslustöð án þess að huga að sprittun áður en ég tengdi hleðslukapalinn. Ég hef örugglega gert fleiri slíka hluti í hugsunarleysi, en ég tel nokkuð víst að mitt smit hefur verið svokallað snertismit. Ef eitthvað þá hefur kannski aðalspennan í mínu lífi sl. 4 vikur verið að frétta af einhverjum í kringum mig með smit sem gæti hafa smitað mig.“

Fannst eins og verið væri að skilja hana útundan

Sylvía hefur verið í einangrun heima hjá sér, en hún býr í 70 fm íbúð þar sem sonur hennar og kærastan hans hafa einnig dvalið síðastliðnar 6 vikur en þau hafa verið hluta tímans í sóttkví.

„Ég hef bara haldið mig inni í mínu herbergi í núna 29 daga og þau hafa þurft að sjá mér fyrir mat og drykk samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda og Almannavarna. Ég hef nú getað hlegið að því og þegar ég hélt að mér væri að batna þarna helgina fyrir páska þá var ég að grínast með að segja þeim ekkert frá því svo ég héldi bara áfram að fá þessa þjónustu.

Það hefur ekki verið neitt mál fyrir mig að vera einangruð, enda hef ég nýtt tímann að mestu til að sofa. Það var eitt kvöld sem mér fannst erfitt að vera innilokuð inni í herbergi, en það var þegar krakkarnir voru að elda saman eins og venjulega, en þau voru með tónlist og að syngja með og þetta hljómaði allt bara svo skemmtilega og fjölskyldulega að mig langaði að vera með. Þá leið mér eins og það væri verið að skilja mig útundan.

En svo fékk ég minn mat og tók kæti mína á ný,“ segir Sylvía kímin en allan tímann hefur hún sagt að þegar sá dagur komi að hún verði pirruð á því að vera innilokuð inni í herbergi, þá sé það mjög stórt batamerki. Sá dagur hefur enn ekki runnið upp en hún vonast til að hann geri það von bráðar.

Súrefnismettunin hrundi eftir máltíðir

Sylvía hefur ekki þurft að leggjast inn á sjúkrahús vegna veikindanna en hún hefur þó tvisvar verið kölluð inn í rannsóknir þegar súrefnismettunin var orðin léleg.

„Daginn fyrir páska var ég farin að finna kunnuglegan verk vinstra megin, bæði tak í baki og neðst við rifbeinin og smá verk við að draga andann. Á páskadag hringdi ég svo á C19-göngudeildina því ég var orðin smeyk við að þetta væri að verða að lungnabólgu og úr varð að ég fór í skoðun til þeirra. Þá leit súrefnismettunin ekki vel út, ég fékk vökva í æð á staðnum og sérfræðilæknir sem ég talaði við í gegnum spjaldtölvu sagði þetta líta út fyrir að það þyrfti að leggja mig inn.

Ég var svo sem ekkert hrifin af því, enda upplifði ég mig aldrei þannig veika og vildi hvorki vera að taka rúmpláss frá einhverjum sem þyrfti meira á því að halda né íþyngja heilbrigðisstarfsfólki. En eftir að allar blóðprufur komu vel út og röntgenmynd af lungum var hrein, þá var ákveðið að ég mætti fara heim með súrefnismettunarmæli. Þar var líka litið til þess að ég byggi stutt frá LSH og væri með tvo fullorðna einstaklinga á heimilinu til aðstoðar.“

Hún hafði ekki haft mikla matarlyst fram að þessu en borðaði ágætlega á páskadagskvöld enda höfðu sonur hennar og kærastan eldað dýrindis máltíð. Í kjölfarið lækkaði hins vegar súrefnismettunin nokkuð og hringdi hún því aftur á COVID-19 göngudeildina. Það var þó ekki talið að það þyrfti að aðhafast neitt. Hún átti bara að fylgjast með súrefnismettunin.

„Á þriðjudeginum 14. apríl þurfti ég hins vegar að fara aftur í skoðun því mettunin hrundi eftir að ég hafði borðað vel í hádeginu. Aftur komu blóðprufur og röntgenmynd vel út fyrir utan hækkað kreatín (vökvaskortur) og niðurstaðan var að líkaminn væri hreinlega ekki að ráða við það í bili að ég væri að borða of góðan mat, því þá yrði ég bara gráðug og borðaði of mikið þrátt fyrir veikindi og lystarleysi. Ég vissi alveg upp á mig sökina hvað þetta varðar. Þarna var ég í raun í þeim sporum að velja á milli þess að anda eða borða, meltingarfærin kröfðust of mikillar orku. Auðvitað valdi ég að geta frekar dregið andann og hef síðan bara borðað lítið, hægt og oft.“

Erfitt að vita af fólkinu í kring sem hefur áhyggjur 

Sylvía segist hafa upplifað sig sem þjóðhöfðingja í höndum heilbrigðisstarfsfólks sem hefur þurft að sinna vinnu sinni við mjög krefjandi aðstæður í tilheyrandi hlífðarbúningum.

„Það voru öll möguleg test gerð, blóðprufur, röntgen, hjartalínurit, blóðþrýstingur og súrefnismettun og svo var allt rannsakað og skoðað á meðan ég beið. Og að ég tali ekki um hvað þetta eru krefjandi aðstæður sem heilbrigðisstarfsfólkið er í, hugsaðu þér að taka blóðprufu og setja upp æðalegg í þessum plasthönskum og með gleraugun og grímuna á þér. Ég veit alveg að ég gæti ekki þrætt nál með tvinna í svona plasthönskum. Ég fékk líka svona alvöru grímu hjá þeim og þegar maður andar í gegnum hana þá kemur móða á gleraugun svo þetta er bara alveg með ólíkindum hvernig þau fara að því að sinna starfi sínu jafn frábærlega og raun ber vitni.“

Aðspurð hvað henni hefur þótt erfiðast að upplifa á þeim tíma sem hún hefur verið veik, segir hún án þess að hika: „Fyrir utan að enski boltinn og Eurovision voru blásin af meinarðu?“

En að öllu gríni slepptu hefur henni þótt erfitt að vita af fólkinu í kringum hana sem hefur haft áhyggjur. Hún hefur nefnilega ekki haft áhyggjur af sjálfri sér heldur litið á þetta sem tímafrekt verkefni. Hins vegar hefur hún ekki alltaf haft orku í að hughreysta aðra og fullvissa um að allt væri í lagi.

„Þess vegna byrjaði ég að setja stöðuuppfærslur á Facebook því ég vissi að t.d. mamma var að fá símtöl og fyrirspurnir frá fólki sem kunni eðlilega ekki við að setja sig í samband við mig.

Það hefur líka verið áskorun að þurfa að virkja sjálfsagann í að borða lítið í einu og hægt, sérstaklega þar sem þessir krakkar elda hvern meistararéttinn á fætur öðrum. Þetta varð þó ekkert erfitt fyrr en eftir að matarlystin fór batnandi en sem betur fer hefur sjálfsaginn aðeins vaknað til lífsins á sama tíma og lystin.“

Þá hefur henni einnig þótt erfitt að hitta ekki tvo eldri syni sína, en miðsonurinn sem er 23 ára og er á einhverfurófi, býr í íbúðinni við hliðina á henni. Fyrir um tveimur mánuðum drógu þau sóttvarnarlínu á milli íbúðanna í þeim tilgangi að annað hvort þeirra gæti séð hinu fyrir aðföngum ef til smits kæmi.

„Hann hefur nú bara haft sinn svarta húmor fyrir þessu og finnst spaugilegt að fólk þurfi að tileinka sér félagsforðun, eitthvað sem er honum meðfætt. Samfélagslegt knúsátak yrði hins vegar krefjandi fyrir hann.“

Ekki fundið fyrir ADHD einkennum síðan hún fékk veiruna

Þá er eitt sem hefur komið Sylvíu sérstaklega á óvart í veikindunum, en það er að hún finnur ekki lengur fyrir ADHD-einkennum, sem hún hefur tekið lyf við um árabil.

„Veiran réðist greinilega ekki á lyktar- og bragðskyn hjá mér, heldur eitthvað annað í taugakerfinu. Ég hef ekki tekið ADHD-lyfin í 2 vikur núna og það örlar ekki á ofvirkni og ég hef varla fengið snjalla hugmynd þennan tíma. Mín ofvirkni var að mestu leyti svona hugarofvirkni, endalausar hugsanir og hugmyndir en það er bara allt í áður óþekktri ró þessa dagana. Ég er reyndar ekkert sátt við þetta og vona að það sé ekki komið til að vera. Sem dæmi um hugmyndirnar þá dreymdi mig í byrjun mars að ég hefði fundið upp smitrakningarapp og hló mikið á milli hóstakasta þegar upplýst var í fjölmiðlum að slíkt væri í smíðum.“

Það hefur reyndar einnig komið henni á óvart hvað sonur hennar og kærastan hans hafa tæklað þessar aðstæður vel. En þau hafa verið að sinna síðustu önninni til stúdentsprófs í fjarnámi með hana veika inni í herbergi, ásamt því að sjá um heimilið.

„Ég hef ekki heyrt eitt einasta rifrildi og stofan er einfaldlega orðin að líkamsræktarstöð. Þetta hefur auðveldað mér mikið við að leyfa mér einfaldlega að vera veik og jafna mig og þurfa ekki að hafa áhyggjur af neinu.“

Hefur verið dugleg að sjá tækifæri í ástandinu

Sylvía er nú á batavegi þó hún sé enn með hita, beinverki, hósta og stöku sinnum hausverk. Þá er hún mjög þreytt en er þó farin að gera haldið sér vakandi nokkurn veginn frá hádegi og til kvölds.

„Ég hef síðastliðna daga líka fundið fyrir liðverkjum sem minna mig á þegar ég fékk svínaflensuna árið 2009 en ég fékk liðagigt eftir hana sem gekk sem betur fer til baka að fullu á næstu 1 til 2 árum. Ég geri því fastlega ráð fyrir að eftirköstin af þessu geti orðið einhver en hef samt engar áhyggjur. Ég er svo heppin að búa á Íslandi þar sem heilbrigðiskerfið hefur reynst vel í stakk búið til að takast á við svona faraldur. Ef eitthvað þá hef ég verið dugleg við að sjá tækifæri í þessu öllu saman, innviðir heimilisins hafa reynst sterkir og unglingarnir komast ekki upp með að láta mig sjá um heimilisverkin í framtíðinni, þau hafa sannað það að þau eru fullfær sjálf. Ég er mjög fegin að hafa ekki smitað neinn, sú hugsun olli mér áhyggjum í upphafi og það hefði verið óbærilegt að dreifa smiti til einhvers sem hefði veikst alvarlega eða jafnvel látist fyrir vikið,“ segir Sylvía.

Hún upplifir líka þakklæti. „Þetta var óvelkomið tækifæri til að kúpla mig út úr daglegu amstri og vera ein með sjálfri mér. Og þó það sé hræðilegt hversu margir hafa veikst á heimsvísu og látið lífið, þá er ég þakklát fyrir þau jákvæðu áhrif sem þetta hefur haft svo sem á umhverfið og hamfarahlýnunina. Fleiri gera sér grein fyrir verðmæti þess starfsfólks sem er í framlínunni sem mun vonandi skila sér í launahækkunum í þá áttina, fólk hefur þurft að endurskoða lifnaðarhætti sína, endurmeta lífsgildi sín, og ég er þess fullviss um að þetta muni leiða af sér eitthvað gott. Ég trúi því a.m.k. að allar aðstæður í lífi mínu leiði af sér hinar bestu afleiðingar.“

Þegar einangruninni loksins lýkur er hún hvað spenntust fyrir að fá að vera með í eldhúsinu á heimilinu, elda matinn, sitja til borð með fjölskyldunni, og taka svo spilakvöld í kjölfarið.

„Heimur minn hefur minnkað svo sl. mánuð að tilhugsunin að losna úr einangrun nær varla út fyrir veggi íbúðarinnar heldur snýst um frelsið að vera í allri íbúðinni. En vissulega hlakka ég til sumarsins, að fara í hjólatúra, golf og útilegur og ég get alveg hugsað mér að fara í hringferð sem tekur líka til Vestfjarða og Vestmannaeyja. Það verður munur að ferðast þegar það er ekki allt krökkt í ferðamönnum.“

En það fyrsta sem hún ætlar að gera er að: „knúsa unglingana í kremju, svo banka upp á í næstu íbúð og gefa þeim syni gott, en stutt, faðmlag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert