Nýtum tímann meðan við bíðum eftir ferðamönnum

Sigurður Ingi mælti loksins fyrir frumvarpi sínu um samvinnuverkefni um …
Sigurður Ingi mælti loksins fyrir frumvarpi sínu um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir sem hefur verið í undirbúningi í tvö ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það er skynsamlegt að nýta tímann vel á meðan beðið er eftir að ferðamennirnir komi aftur hingað til lands segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sem mælti í dag fyrir frumvarpi um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

Í færslu á Facebook segir Sigurður að frumvarpið hafi verið í undirbúningi síðastliðin tvö ár og markmiðið með því sé að auka verulega fjármagn til vegaframkvæmda og mæta þannig mikilli þörf fyrir fjárfestingar í samgöngum.

„Áætlað er að samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir geti skapað allt að 4.000 ársverk sem skiptist á milli hönnunar í hátæknistörfum og verktöku á framkvæmdatíma fyrir utan afleidd störf,“ skrifar ráðherrann.

Mikilvægt að bregðast hratt við

Frumvarpið er að sögn Sigurðar kærkomið fjárfestingatækifæri til lengri tíma, til dæmis fyrir lífeyrissjóði sem vilja örugga og arðsama valkosti. Þá sé það mikilvægur þáttur í að fá aukið fjármagn inn í fjárfestingaátak ríkisstjórnarinnar í innviðum samfélagsins og búa til öfluga samvinnu á milli fjárfesta og ríkis til framtíðar.

„Það er mikilvægt að bregðast hratt við en gera jafnframt langtímaáætlanir eins og kostur er, í þessari erfiðu stöðu sem samfélagið glímir við. Halda áfram að byggja upp vegi, flugvelli og hafnir svo samfélagið verði í stakk búið þegar Covid-19-faraldurinn verður um garð genginn og við förum að sjá ferðamenn eins og áður,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert