Sendu starfsmönnum „stórt FOKKJÚ merki“

Þórunn hefur starfað hjá Icelandair í tæp fjögur ár og …
Þórunn hefur starfað hjá Icelandair í tæp fjögur ár og segist ekki lengur stolt af því. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fastráðin flugfreyja hjá Icelandair, sem starfað hefur hjá fyrirtækinu í tæp fjögur ár, segist vera með með 298 þúsund krónur í grunnlaun fyrir 100 prósent starf. Þórunn Elva Þorgeirsdóttir, flugfreyja hjá Icelandair, birtir í dag langan pistil á Facebook-síðu sinni þar sem hún fer yfir það hvað flugfreyjur hafa látið bjóða sér í starfsumhverfi sínu. Hún segir það „gjörsamlega fáránlegt“ að stjórnendur Icelandair geri kröfu um að grunnlaunin verði lækkuð, enda séu þau nú þegar lægri eða jafnhá lægstu launum landsins samkvæmt launatöflum Eflingar og VR. Þórunn gaf mbl.is leyfi til að birta færsluna sína.

„Fyrst að fyrirtækið sem við höfum verið stolt af því að vinna fyrir í mörg ár virðist vera í svona góðri PR vinnu við það að „sverta okkur“ flugfreyjurnar, að lesa að við séum svona miklar prímadonnur og okkur að kenna að mögulegt fall fyrirtækisins verði að veruleika verð ég bara að tjá mig,“ skrifar Þórunn meðal annars. En Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði í bréfi til starfsfólks á sunnudaginn að starfsfólkið sjálft væri ein helsta hindrunin í vegi fyrir því að hægt væri að bjarga félaginu.

„Það vita kannski fáir en flugfreyjur fá ekki greidda „per vakt“ heldur greidda „block“ eða þegar flugvélin fer frá hliði og kemur aftur að hliði á áfangastað. Það þýðir að þegar við erum úti í vél í töfum, bilunum, veðri með brjálaða farþega eða öllum hinum fjandanum sem kemur upp erum við ekki á launum. Þegar við komum heim úr vinnu 6 tímum eftir að hafa lent á hliði vegna tafa á flugvöllum, töskubönd biluð, beðið eftir hjólastólaþjónustu og fleira sem gerist margOFT á ári ef ekki bara nokkrum sinnum í mánuði segjum við ekkert og brosum bara.“

Þórunn segir það fyrir neðan allar hellur að stjórnendur vilji lækka laun flugfreyja en á sama tíma fjölga tímunum sem þær mega fljúga, taka af þeim yfirvinnu fyrir hátíðardaga, skerða hvíldarréttinn, fækka frídögum ásamt frekari skerðingum og auknum kröfum um vinnuskyldu.

Margar veikst og hætt störfum vegna lélegra loftgæða 

Hún bendir á að flugfreyjur séu mjög mikið að heiman. Þær vinni kvöld og nætur, fljúgi yfir tímabelti of rugli sólarhringnum hjá sér nokkrum sinnum í mánuði í einu versta starfsumhverfi sem völ sé á. „Við erum frá fjölskyldum okkar í tíma og ótíma, á afmælum, jólum og frídögum og við eigum rétt á einu helgarfríi í mánuði.

Þórunn segir margar flugfreyjur hafa veikst, þurft að hætta störfum og jafnvel fara í endurhæfingu vegna lélegra loftgæða í flugi, en þær séu ekki mikið að leka því í fjölmiðla. „Því við erum svo meðvirk með félaginu sem við erum svo stolt af. „Þessi varð veik á þessari vél í gær“ .. ok ég samt skal fljúga á henni í dag og taka sénsinn – fyrir félagið mitt. Greinilega til einskis.“

Þá segir hún nánast ómögulegt fyrir flugfreyjur að skipuleggja frí þar sem þær fái skrána sína aðeins 14 dögum fyrir gildistöku. Og þær fái nánast aldrei sumarfrí á umbeðnum tíma.

„Við erum ekki bara þarna til þess að vera sæt“ 

Þórunn bendir jafnframt á að það séu ríkar ástæður fyrir því að fjórar flugfreyjur séu um borð hverju sinni, en það sé af öryggisástæðum. Þær eigi fyrst og fremst að gæta öryggis farþega, enda sæki þær hin ýmsu námskeið til að geta tekist á við alls konar uppákomur, eins og að eiga við flugdólga. Þá fari þær á skyndihjálparnámskeið og námskeið í að takast á við eldsvoða og að lenda í vatni. En nú eigi að gera kröfu um að þær fái ekki laun fyrir þessa námskeiðsdaga.

„Við erum ekki bara þarna til þess að vera sæt og brosa til ykkar, gefa ykkur kaffi og te og „leyfa“ einstaka mönnum að slá mann á rassinn. Við erum skikkaðar til þess að vera stífmálaðar hvern vinnudag, við eigum að vera með eyeliner, kinnalit, púður, maskara, meik, sólapúður, varalit og naglalakk – alls ekki of dökkt og ekki of ljóst. Við eigum að fela húðflúr og ef það sést í það fáum við áminningu eða skammir.“

Hún segir að afturfarirnar yrðu grátlegar ef það tilboð sem Icelandair hefur lagt fyrir flugfreyjur yrði samþykkt. En meðal þess sem kemur fram í því er að flugfreyjur geti ekki vænst launahækkana fyrr en 1. október 2023, en þær fengu síðast launahækkanir í maí árið 2018.

„Í gær var sorgardagur í sögu Icelandair þegar yfirmenn okkar sendu 940 af sínum starfsmönnum sem alltaf hafa staðið með fyrirtækinu sínu stórt FOKKJÚ merki. Ég var mjög stolt af því að vera starfsmaður Icelandair. Aldeilis ekki lengur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert