Mikil neikvæðni í uppgjöri ríkissjóðs

Peningum virðist hafa rignt úr ríkissjóði undanfarið ef mið er …
Peningum virðist hafa rignt úr ríkissjóði undanfarið ef mið er tekið af uppgjörinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rekstrarafkoma ríkissjóðs á fyrsta ársfjórðungi er neikvæð um 32 milljarða króna en áætlun gerði ráð fyrir fimmtán milljarða króna halla. Þetta kemur fram í uppgjöri ríkissjóðs fyrir fyrsta ársfjórðung ársins 2020.

Tekjur tímabilsins án fjármunatekna námu 180 milljörðum króna en það er sextán milljörðum krónum lægra en áætlun gerði ráð fyrir. Þar af eru tekjuskattar sex milljörðum undir áætlun, neysluskattar þremur milljörðum króna undir áætlun og skattar og tryggingagjöld alls tíu milljörðum undir áætlun.

Aukinn gjaldfrestur veldur skorti á skatttekjum

Aukinn gjaldfrestur á staðgreiðslu launagreiðenda veldur því að sjö milljarða króna skatttekjur sem annars hefðu verið greiddar í marsmánuði frestast til næsta árs. Gjöld tímabilsins án fjármagnsgjalda eru 202 milljarðar króna en það er rúmum einum milljarði króna lægra en áætlun gerði ráð fyrir. 

Þá er fjármagnsjöfnuður tímabilsins neikvæður um tæpa ellefu milljarða sem er tveimur milljörðum umfram áætlun. Fjármagnstekjur eru 23 milljarðar sem er 21 milljarði umfram áætlun og fjármagnsgjöld eru 34 milljarðar sem er 23 milljörðum umfram áætlun. Hvort tveggja er tilkomið vegna gengismunar.

Handbært fé lækkaði um nítján milljarða á fyrsta ársfjórðungi og voru rekstrarhreyfingar jákvæðar um tvo milljarða. Þá voru fjárfestingarhreyfingar neikvæðar um fimm milljarða króna og fjármögnunarhreyfingar neikvæðar um sextán milljarða.

Fjárfesting innan heimilda

Staða langtímalána var alls 789 milljarðar í lok mars 2020 og lækkaði um 26 milljarða frá árslokum 2019, þrátt fyrir óhagstæðan gengismun. Afborganir lána námu 64 milljörðum króna.

Fjárfesting tímabilsins er rúmir fjórir milljarðar sem er um sex milljarðar króna innan heimilda. Þar af eru framkvæmdir Vegagerðarinnar fjórum milljörðum innan áætlunar.

Kostnaður vegna COVID-19 er aðallega kominn fram í málaflokki vinnumála og atvinnuleysis og nemur hann fimm milljörðum. Þá kostaði sérhæfð sjúkrahúsþjónusta, almenn sjúkrahúsþjónusta og heilsugæsla, auk sjúkratrygginga ríkissjóð alls um 400 milljónir og löggæsla um 200 milljónir.

Áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru skýra 12 milljarða frávik frá áætlun á afkomu tímabilsins.

„Þannig veldur gjaldfrestur skatta 7 ma.kr. frestun á tekjum sem annars hefðu fallið til og útgjöld vegna atvinnuleysis eru 5 ma.kr. umfram áætlun. Gjöld málefnasviða og málaflokka nema 231,6 ma.kr. sem er um 28,8 ma.kr. umfram áætlun, sem liggur því sem næst allt í tveimur málaflokkum, fjármagnskostnaði 23 ma.kr. og vinnumál og atvinnuleysi 5,5 ma.kr.“, segir í samantekt fjármála- og efnahagsráðuneytisins um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert