Auðvelt að pósta og pæla svo ekki meira í því

Ljósmynd/Atli Freyr Steinsson

„Samfélagsmiðlar geta verið góðir til að koma ákveðnum skilaboðum áleiðis, en að einhverju leyti finnst mér orðin geta orðið tóm í svona miklu magni. Það er svo auðvelt að pósta og pæla svo bara ekki meira í því. Ég vildi ekki taka þátt í því en fannst ég samt verða að nýta þennan miðil til að segja frá og koma minni rödd áfram.“

Þetta segir Chanel Björk Sturludóttir sem vakið hefur athygli á stöðu Íslendinga af erlendum uppruna á Instagram, en kynþáttafordómar eru mörgum ofarlega í huga í kjölfar dráps bandarísku lögreglunnar á George Floyd og hafa fjölmargir, bæði hérlendis og erlendis, látið sig málið varða með færslum á samfélagsmiðlum.

„Ég er af blönduðum uppruna, pabbi minn er hvítur Íslendingur en mamma er bresk og upprunalega frá Jamaíku. Ég ólst upp á Englandi en flutti til Íslands þegar ég var tíu ára svo ég hef upplifað báða heima. Í Englandi er aðeins meiri fjölmenning en á Íslandi er meirihlutinn hvítir Íslendingar,“ segir Chanel í samtali við mbl.is.

Hún segir Íslendinga gjarnan halda að rasismi eigi ekki við á Íslandi. „Hér var lengi vel ekki mikið af lituðu fólki, en við höfum samt sem áður verið tengd umheiminum svo lengi. Við lítum mikið upp til Bandaríkjanna og til annarra Evrópuríkja, við ferðumst rosalega mikið og tökum mikið frá öðrum menningarheimum, en viljum ekki taka þátt í vandamálum sem þar eru af því við höldum að það eigi ekki við.“

Nú séu innflytjendur hins vegar orðnir ansi margir og Íslendingar þurfi líka að líta inn á við þegar komi að kynþáttafordómum, enda hafi þeir áhrif á fólkið í samfélaginu. Sjálf segist Chanel sem dæmi verða fyrir einhvers konar fordómum nánast á hverjum degi. Hún spyrji sig oft að því hvort hún sé Íslendingur í augum annarra þó hún hafi brúnan húðlit.

Sterkt í þjóðarsálinni að Íslendingar séu hvítir yfirlitum

„Það algengasta er að fólk talar við mig á ensku að fyrra bragði. Vegna þess hvernig ég lít út þá finnst fólki ég ekki geta verið Íslendingur eða talað íslensku. Í flestum öðrum Evrópuríkjum skiptir ekki máli hvernig þú lítur út. Í Frakklandi talar fólk við þig á frönsku, það er enginn búinn að gera sér upp ímynd í huganum um hvernig hinn týpíski Frakki lítur út. Það er eins og það sé mjög sterkt í þjóðarsálinni að Íslendingar séu hvítir yfirlitum,“ segir Chanel.

Annað dæmi sem hún nefnir er að fólk snerti gjarnan hárið á henni án leyfis, en hún er tiltölulega nýbyrjuð að hafa hárið laust og frjálst. „Ég hafði aldrei þorað því áður, mér fannst ég vera að taka of mikla athygli til mín og taka of mikið pláss. Sem ung stúlka að alast upp í samfélagi þar sem þú færð endalaust af skilaboðum um hvað það er að vera falleg og getur ekki speglað þig í þeim þá ferðu að halda að það sé eitthvað að þér, að þú sért síðri og hárið á þér ekki nógu fallegt. Það hefur verið innri barátta sem ég hef verið að díla við mjög lengi.“

Stöðvuð af öryggisverði í Bónus

Það var svo atvik sem Chanel lenti í í gær sem hvatti hana til að tjá sig um ástandið. „Ég var að versla í Bónus á Laugaveginum og var stoppuð af öryggisverði sem spyr hvort hann megi skoða ofan í töskuna mína. Það er ótrúlega neyðarlegt atvik til að lenda í, þetta er verslun sem ég versla mjög oft í. Hann sá að ég var ekki að stela neinu og leyfði mér að fara, en eftir á fór ég að hugsa hvers vegna hann valdi mig. Hvað var öðruvísi við mig en alla aðra í búðinni? Ég var bara á leiðinni heim, með tösku, en þarna var fullt af fólki á leið heim úr vinnunni, með töskur, en hann valdi mig. Það fyrsta sem mér dettur í hug er að ég er hálf svört. Maður fer að spyrja sig um sjálfan sig og hvar maður stendur í samfélaginu og hvort allir aðrir haldi það sama og þessi maður, að vegna þess að ég sé brún að húðlit sé ég einhver þjófur.“

Eins og áður segir hafa kynþáttafordómar verið mikið í deiglunni vegna ástandsins í Bandaríkjunum. Chanel segist hafa upplifað svolítinn kvíða vegna ástandsins. „Sem hálf svört manneskja á ég einhverja samleið með því sem er að gerast í Bandaríkjunum, en samt hef ég, og annað blandað fólk á Íslandi, ekki upplifað þennan rasisma á þann hátt sem er að gerast þar. Mjög oft þegar þú ert hluti af minnihlutahópi þá leitar meirihlutinn til þín eins og þú eigir að svara fyrir allan hópinn. Ég myndi vilja biðja hvíta Íslendinga að fara mjög varlega að því þegar þeir leita lausna til þeirra sem eru brúnir á Íslandi af því þetta getur verið mjög triggerandi fyrir okkur.“

Þess í stað hvetur Chanel fólk til að leita sér upplýsinga um réttindabaráttu svartra og annarra minnihlutahópa á netinu. „Ég hvet fólk til að skoða kerfisbundinn rasisma, hugtakið hvítleika og hvaða forréttindi fylgja því að hafa hvítan húðlit og muna að forréttindi þýða ekki að þú hafir alltaf haft það rosalega gott, alls ekki, og það að átta sig á forréttindum sínum þýðir ekki að þú þurfir að gefa þau frá þér. Það er enginn að fara að taka neitt af þér, við erum að biðja fólk að nýta forréttindastöðu sína til að hjálpa þeim sem minna mega sín.“

Meðal efnis sem Chanel mælir með eru útvarpsþættirnir Íslenska mannflóran sem fjalla um fjölmenningu á Íslandi og eru aðgengilegir á öllum helstu hlaðvarpsveitum, t.d. á Spotify.

mbl.is