Segir gagnrýni á gjaldtöku ekki óeðlilega

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Að mínu áliti er eðlilegt að ferðamaðurinn sjálfur taki þátt í kostnaðinum en ég geri ekki athugasemdir við það að mönnum finnist 15 þúsund krónurnar of háar og við verðum að kanna hvaða áhrif það eigi eftir að hafa.“ Þetta segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamálaráðherra, um gagnrýni á kostnað við skimanir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. 

Í vikunni tilkynnti heilbrigðisráðherra að farþegar sem koma til Íslands og kjósa að fara í sýnatöku vegna Covid-19 fremur en að sitja í 14 daga sóttkví, munu frá 1. júlí næstkomandi greiða 15.000 krónu gjald vegna sýnatökunnar. 

Gjaldtakan hefur verið gagnrýnd, meðal annars af framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, sem segir gjaldið í raun virka eins og skattlagningu á ferðamenn. Afbókanir séu þegar byrjaðar að streyma inn vegna ákvörðunar stjórnvalda. 

Þórdís segir þessa gagnrýni ekki óeðlilega. 

„Mér finnst ekkert óeðlilegt að deilt sé um fjárhæðina. Það eru væntanlega líka deilur um það hvort eigi yfirhöfuð að skima, hvort það eigi þá að rukka og þá hvaða gjald. Ég gerði alveg ráð fyrir því að það yrði deilt um þetta og 15.000 krónur eru náttúrulega peningur,“ segir Þórdís. 

Ákvörðun heilbrigðisráðherra

Þórdís bendir á að fyrstu tvær vikurnar verði gjaldfrjálsar og að börn fædd eftir 2005 verði ekki skimuð. 

„Þannig að kostnaður fyrir barnafjölskyldur verður minni fyrir vikið. Við höfum verið skýr með það að þetta verði metið mjög reglulega, það er að segja árangurinn af því að skima, framkvæmdin o.s.frv. Við vitum ekki í dag hvað þetta verði í langan tíma þannig að auðvitað er óvissa. Ég átta mig á því að flugframboð og bókanir fram í tímann hafi áhrif, en staðan er einfaldlega sú að þessi óvissa er til staðar og við getum ekki tekið ákvörðun um það hversu lengi þetta verði gert fyrr en við erum farin af stað,“ segir Þórdís. 

Þá segir hún gjaldtökuna vera ákvörðun þess ráðherra sem fari með málaflokkinn.  

„Það er mat heilbrigðisráðuneytisins að tekið verði þjónustugjald og það er ákvörðun heilbrigðisráðherra að leggja á þetta gjald með heimild í sóttvarnalögum.“

Ferðahegðun mismunandi eftir hópum

Ýmis ríki Evrópu hafa ákveðið að opna landamæri sín án takmarkana, meðal annars Þýskaland og Ítalía. Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, hefur sagt að ferðafólk ferðist frekar á áfangastaði þar sem ekki þarf að greiða gjald líkt og hér á landi. Þórdís segir að verið sé að greina ferðavilja og að ákveðnir markhópar virðist frekar kjósa áfangastaði þar sem sóttvarnir eru góðar. 

„Við erum að mæla ferðavilja á okkar mörkuðum og leggja töluverða vinnu í að greina hvaða markhópar eru líklegir til að koma hingað. Við vitum ekki ennþá hvernig ferðahegðun fólks verður og hún verður væntanlega mismunandi eftir hópum. Auðvitað er það þannig að það er einhver markhópur sem vill frekar koma á áfangastað þar sem er meiri yfirsýn og fleiri sóttvarnarráðstafanir heldur en víða annarsstaðar þar sem þær eru nánast engar. Þó að við séum ekki endilega að fara skima í fleiri mánuði erum við auðvitað samt sem áður að leggja til að ferðamenn sæki appið okkar, við erum áfram með smitrakningarteymi og frekari ráðstafanir og stjórn á þessu heldur en ýmis önnur lönd. En það liggur alveg fyrir að einhverjir ferðamenn kjósa frekar að fara á áfangastað þar sem ekkert gjald er tekið, þar sem engin skimun er. En við sjáum samt þegar ferðavilji er kannaður að það hafa margir áhyggjur af veirunni og við höfum auðvitað fundið fyrir miklum áhuga á Íslandi bæði útaf því hvernig við höfum tekið á veirunni og því stóra verkefni, en líka því að við munum áfram stýra því.“

Þá segir Þórdís að ýmis önnur ríki séu eðlilega ólíklegri til að skima útaf landfræðilegri legu og flækjustigi slíks verkefnis. 

„Nýja-Sjáland ætlar líka að skima, en mér skilst að það verði gjaldfrjálst þannig að þar liggur munurinn. En það er náttúrulega allt annað verkefni að skima á eyju annars vegar og í löndum þar sem stærstur hópur fólks kemur með bílum eða lestum hins vegar. Ég held að ýmis ríki séu kannski síður að skima vegna þess að það er miklu stærra og flóknara verkefni en fyrir okkur. Fyrir mér er aðalatriðið að þessi framkvæmd verði góð og eins skilvirk og kostur er, að flæðið á flugvellinum sé tryggt. En eins og ég segi þá er þetta ákvörðun heilbrigðisráðherra og aðalatriðið er að við séum að opna og að við gerum það vel.“

mbl.is