Hindranirnar eru of margar

„Það er búið að setja upp of margar hindranir. Hver …
„Það er búið að setja upp of margar hindranir. Hver einasta og ein þeirra er afbókunarástæða en þegar þær koma allar saman þá rauðglóir allt, en sérstaklega núna út af þessari ákvörðun að vottorð verða ekki tekin gild,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óvissan sem erlendir ferðamenn búa við í aðdraganda komunnar til landsins er enn of mikil að mati Jóhannesar Þórs Skúlasonar, framkvæmdastjóra Samtaka Ferðaþjónustunnar. Hindranir sem fylgi skimun séu einfaldlega of margar og bendir hann á að í gær hafi enn ein hindrunin bæst í hópinn þegar sóttvarnalæknir greindi frá því að ekki verði tekið við vottorðum erlendra ferðamanna líkt og til stóð í upphafi. 

„Það er búið að setja upp of margar hindranir. Hver einasta og ein þeirra er afbókunarástæða en þegar þær koma allar saman þá rauðglóir allt, en sérstaklega núna út af þessari ákvörðun að vottorð verða ekki tekin gild,“ segir Jóhannes Þór í samtali við mbl.is. Afbókanirnar ná jafnt yfir stóra hópa sem og einstaklinga að hans sögn og um er að ræða ferðir allt fram í norðurljósaferðir í október. 

Á upplýsingafundi í Ráðherrabústaðnum í gær vegna opnun landamæra 15. júní kom meðal annars fram að umferð um Kefla­vík­ur­flug­völl mun að ein­hverju leyti þurfa að stýr­ast af getu heil­brigðis­kerf­is­ins til þess að skima fyr­ir veirunni. Ráðgert er að hægt verði að taka allt að 2.000 sýni á sól­ar­hring og verður sýna­taka aðlöguð að lend­ing­ar­tím­um.

Beint tjón fyrir ferðaþjónustuna

„Þessar ákvarðanir eru að valda ferðaþjónustufyrirtækjum beinu tjóni núna, þetta er verulega alvarlegt mál,“ segir Jóhannes Þór. Að hans mati eru stjórnvöld með aðgerðum sínum við opnun landamæra að leggja efnahagsleg sjónarmið og hagsmuni ferðaþjónustu til hliðar. „Ef þetta á að vera svona út sumarið er þetta verulegt vandamál.“

Ferðamenn geta ferðast til Íslands á ný frá 15. júní, …
Ferðamenn geta ferðast til Íslands á ný frá 15. júní, með ýmsum takmörkunum þó. mbl.is/Rax

Jóhannes Þór segir samt sem áður að ekki megi gleyma því að hægt verður að breyta fyrirkomulaginu með stuttum fyrirvara. „Fólk er í heiðarleika að reyna að meta það hvernig þetta verður best gert. Við erum ekki alveg sátt við hvernig þetta er sett upp og ég held að það sé áhugi fyrir því, hjá almannavörnum, sóttvarnalækni og ríkisstjórninni að meta þetta núna en ég held að það þurfi að skoða það að koma því út sem fyrst hvernig þetta á að vera eftir 1. júlí.“ 

Jóhannes Þór nefnir dæmi um að hægt væri að vera með skimunareftirlit á Keflavíkurflugvelli þegar reynsla verður komin á millilandaflug í sumar þar sem ferðamenn verða skimaðir af handahófi. Þá segir hann lykilatriði að taka á móti erlendum vottorðum. „Það er mikill vilji hjá ferðaskrifstofum og ferðamönnum að nýta sér þanni möguleika. Þannig er fólk búið að fá það staðfest áður en það fer upp í flugvélina að það sé vírus-frítt og að það geti nýtt fríið sitt. Það breytir alveg ótrúlega miklu fyrir ferðamanninn að vera ekki í óvissu þegar hann kemur út úr flugvélinni í Keflavík.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert