Lögregla leitaði þeirra sem rufu sóttkví

Fimmmenningarnir hafa nú verið fluttir í sóttkví í sóttvarnahúsinu við …
Fimmmenningarnir hafa nú verið fluttir í sóttkví í sóttvarnahúsinu við Rauðarárstíg. mbl.is/Árni Sæberg

Fimmmenningarnir sem rufu sóttkví með því að mæta á lögreglustöð með tveimur leigubílum í nótt til að láta vita af breyttum dvalarstað eru þeir sem lögregla leitaði að vegna tengsla við hóp Rúmena sem er í haldi lögreglu, þar af tveggja með staðfest kórónuveirusmit. 

Þetta staðfestir Víðir Reynisson í samtali við mbl.is. Fimmmenningarnir hafa nú verið fluttir í sóttkví í sóttvarnahúsinu við Rauðarárstíg.

„Þetta var þannig að í smitrakningunni kom tenging við þessa einstaklinga sem við vorum að svipast um eftir, þeir voru ekki í því húsnæði sem þeir höfðu skráð sig í í sóttkví. Þeir komu á lögreglustöðina í nótt og eru í sóttvarnahúsinu. Við tökum úr þeim sýni í dag til þess að sjá hvort þeir séu smitaðir, en það er talið að þeir hefðu verið í samskiptum við annan af þeim sem eru jákvæðir,“ segir Víðir.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um að senda þá úr hinum hópnum sem ekki reyndust smitaðir úr landi. „Það er ekki alveg orðið ljóst hvaða ferli þeir fara í. Þeir eru í sóttkví núna og sóttvarnalæknir á eftir að fara yfir málin,“ segir Víðir. Líklega muni þeim bjóðast að vera hér áfram í sóttkví eða fara til síns heima. 

„Við megum leyfa þeim að fara úr landi ef þeir eru staðfestir ekki smitaðir, en þessir tveir sem eru smitaðir þurfa að vera hér þangað til þeir eru útskrifaðir.“

Fjölmenni í sóttvarnahúsi á undan áætlun

Nokkuð fjölmennt er orðið í sóttvarnahúsinu við Rauðarárstíg. „Það er fyrr heldur en við ætluðum, en auðvitað áttum við von á að svona aðstæður gætu komið upp þar sem við myndum þurfa að taka á móti fjölda manna og því var bara flýtt um hálfan sólarhring að setja allt af stað.“

Í viðtali í Ísland vaknar í morgun sagði Víðir að sú breyting sem varð á landamærum Íslands á miðnætti geri yfirvöldum kleift að halda betur utan um þá sem koma hingað til lands. Landamærin hafi vissulega verið opin, með því skilyrði að fólk sætti tveggja vikna sóttkví, en að nú þyrfti fólk að skrá sig í rafrænt skráningarkerfi áður en komið væri til landsins. 

„Það gefur okkur vonandi betri stjórn á þessum aðstæðum,“ sagði Víðir og að með skimun við landamæri væri hægt að komast að því hvort fólk væri smitað innan nokkurra klukkustunda, í stað þess að komast að því fyrir tilviljun nokkrum dögum seinna.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert