„Ég hugsa að þetta fari 53 – 47“

Guðmundur Franklín Jónsson telur að forsetakosningarnar á laugardaginn 27. Júní muni fara 53% gegn 47%. Einnig segist hann þegar byrjaður að undirbúa flutning á Bessastaði. Þetta sagði Guðmundur Franklín í Kastljósi í kvöld.

Guðmundur Franklín sagði í viðtalinu að ef hann yrði kjörinn forseti myndi hann gefa helming launa sinna til Barnaspítala Hringsins, vilji Alþingi ekki leggja fram frumvarp um að lækka laun forseta. Björg Thorarensen hafði sagt í fyrri Kastljósþætti að ekki væri hægt að leggja fram lög um að lækka laun forseta á miðju kjörtímabili.

„Menn í mínum huga eru litlausir“

Guðmundur var spurður út í sögu sína í stjórnmálum, og fólkið sem hafa birst með honum á myndum á meðan framboðinu hefur staðið.

Einn umboðsmanna framboðs Guðmundar Franklíns er Gunnlaugur Ingvarsson, formaður Frelsisflokksins. Þá er Helgi Helgason, sem tók við Guðmundi sem formaður stjórnmálahreyfingarinnar Hægri Grænum, nú formaður Íslensku Þjóðfylkingarinnar. Báðir aðilar hafa, að sögn Einars Þorsteinssonar, kynnis Kastljóss, talað gegn fjölmenningu og alið á ótta við útlendinga.

Guðmundur var spurður út í tengsl sín við þessa menn.

Þetta eru eflaust ágætis menn, og ég þekki þá bara af einu góðu, eins og marga aðra. Þeir sem þekkja mig vita að þetta á ekki um mig eða neinn minna vina. Ég er búinn að starfa erlendis í mörg ár og er örugglega búinn að ráða hundruð starfsmanna héðan og þaðan úr heiminum,“ svarar Guðmundur Franklín. „Menn í mínum huga eru litlausir.“

Hann segist þá ekki greina á milli þeirra sem til hans koma og vilja hjálpa við framboð hans. „Ég spyr ekki um trúarskírteinið þitt, eða hvaðan þú ert ættaður.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Segir kosningarnar spennandi

Guðmundur Franklín segir kosningarnar í ár vera rosalega spennandi

„Þetta er einvígi. Fólk hefur þess val að velja á milli annars vegar virks forseta, eða óvirks forseta,“ sagði Guðmundur Franklín.

„Með fullri virðingu fyrir þér,“ sagði Einar, „þá er heldur drjúgt af þér að segja að þetta séu spennandi kosningar.“

Guðmundur svarar að fólk muni verða undrandi þegar líður á kvöldið og talið verður upp úr kjörkössum.

„Trúir þú að þú sigrir,“ spurði Einar að lokum. „Alveg allar götur, svarði Guðmundur. Ég hugsa að þetta fari 53 – 47.“

Mælist með 7% fylgi

Samkvæmt nýjasta þjóðarpúlsi Gallup, sem birt var í dag, ætla tæplega 7% þeirra sem taka afstöðu að kjósa Guðmund Franklín ef gengið yrði til kosninga í dag, á meðan rúmlega 93% ætla að kjósa Guðna Th. Jóhannesson. Nær 98% kvenna kysu Guðna á móti um 89% karla.

53% þeirra sem kysu Miðflokkinn segjast myndu kjósa Guðmund, en 94% - 99% þeirra sem kysu Sjálfstæðisflokkinn, Samfylkinguna, Framsóknarflokkinn, Viðreisn, Vinstri Græn eða Pírata segjast myndu kjósa Guðna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert