Hefja sjálfstæða rannsókn á brunanum

Slökkviliðsmenn að störfum á vettvangi í gær.
Slökkviliðsmenn að störfum á vettvangi í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eldvarnasvið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er að hefja sjálfstæða rannsókn á eldsvoða sem varð á Bræðraborgarstíg í gær, þar sem þrír létu lífið. Tveir eru enn á gjörgæsludeild Landspítalans eftir brunann, en flestir sem voru inni í húsinu þegar eldurinn braust út voru af erlendum uppruna.

Svo margir hafa ekki látist í einum atburði á Íslandi í fjölda ára.

Útkall barst vegna bruna í íbúðarhúsnæði á horni Bræðraborgarstígs og …
Útkall barst vegna bruna í íbúðarhúsnæði á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu á fjórða tímanum í gær og var allt tiltækt lið sent á vettvang. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rannsókn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er ekki sakamálarannsókn og beinist yfirleitt ekki sérstaklega að tildrögum brunans, heldur miðar hún heldur að því að fara yfir slökkvistarfið, hvernig það gekk og þá hvað sé hægt að læra af eldsvoðanum í sambandi við regluverk og aðstæður í húsinu sjálfu.

Bræðraborgarstígur 1 í morgun.
Bræðraborgarstígur 1 í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Davíð Snorrason, fagstjóri á eldvarnasviði hjá stofnuninni, segir að verið sé að skoða teikningar að húsinu, sem margar eru mjög gamlar. Nýjustu teikningar eru að sögn hans frá aldamótum en hafa verið uppfærðar til samræmis við legu rýma í byggingunni. Fulltrúar frá stofnuninni eru þá á leið á vettvang.

Húsið frá 1906

Davíð segir oft einkennandi fyrir eldri hús að hólfun á milli hæða sé ófullnægjandi, þó að ekki verði fullyrt að það gildi um húsið á Bræðraborgarstíg, sem er frá 1906. 

Hús séu töluvert betur gerð í dag en var þá og Davíð segir að þeir þættir sem eru eftir rannsókn taldir ófullnægjandi í eldri byggingum sem brenna séu þættir sem oft er betur gætt að í nýrri byggingum.

Rannsókn Mannvirkjastofnunar sem nú hefst getur verið margra mánaða ferli, sem lýkur svo með skýrslu sem annaðhvort er gerð opinber eða ekki. Stofnunin rannsakar mál alltaf þegar manneskja lætur lífið í eldsvoða. „Við erum að skoða slökkvistarfið og sömuleiðis að sjá hvað við getum lært af þessu varðandi regluverkið. Við drögum alltaf einhvern lærdóm af málunum og vinnum þetta í miklu samstarfi við lögreglu og slökkvilið, þó að rannsókn okkar sé sjálfstæð rannsókn,“ segir Davíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert