Kom á óvart hversu hratt eldurinn þróaðist

Eldurinn var orðinn þróaður og mikill ákafi var í honum …
Eldurinn var orðinn þróaður og mikill ákafi var í honum þegar slökkviliðsmenn mættu á vettvang í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eina leiðin til að slökkva eldinn í íbúðarhúsnæðinu á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu í gær var að rífa húsið. Hrunhættan inni í húsinu var svo mikil að ekki var hægt að senda slökkviliðsmenn inn í það til að vinna á brunanum innan frá segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, í samtali við mbl.is.

„Okkar starfi lauk um hálffjögur í nótt og þegar við yfirgefum vettvang þá er búið að taka það að stórum hluta niður. Eina leiðin fyrir okkur til að vinna á þessum bruna var hreinlega að taka húsið niður í bútum með krabba og svo var fullnaðarslökkt í bútunum og farið með þá á Sorpu á vörubíl,“ segir Jón og útskýrir af hverju:

„Hrunhættan þarna inni var þannig að ég gat ekki sent mína menn í slökkvistarf innanhúss því það var bæði hrunhætta og hætta á að það myndi hreinlega hrynja undan þeim gólfið.“

Nokkrir voru inni í húsinu þegar slökkviliðið bar að garði og voru sex fluttir á sjúkrahús. Af þeim eru þrír látnir og tveir eru á gjörgæsludeild. Þrír voru handteknir á vettvangi.

Lögreglan stóð sig frábærlega vel

Jón segir að slökkvistarfið í gær hafi verið mjög flókið og erfitt verkefni, en það eigi að vísu almennt við um bruna í íbúðarbyggð. Nálægðin hafi þó ekki komið að sök í gær – slökkviliðsmenn höfðu greiðan aðgang á vettvangi og að tækjum.

„Lögreglan stóð sig alveg frábærlega vel í því að tryggja það – fólki var haldið í hæfilegri fjarlægð þannig að við urðum ekki fyrir neinni truflun við okkar starf,“ tekur hann fram.

Fjöldi lögreglumanna passaði upp á að slökkviliðsmenn hefðu góðan vinnufrið.
Fjöldi lögreglumanna passaði upp á að slökkviliðsmenn hefðu góðan vinnufrið. mbl.is/Erla

„Kom okkur í opna skjöldu“

Það hjálpaði líka slökkviliðsmönnum að hættan á að eldur færi í nærliggjandi hús var lítil því veður var hagstætt og slökkviliðsmenn voru fljótir á vettvang. Það kom þeim þó á óvart hversu mikill eldurinn var orðinn strax þegar fyrstu menn mættu á staðinn.

„Þetta var mjög flókið verkefni því það er mikill eldur þegar við komum á vettvang fyrst. Það kom okkur í opna skjöldu hvað eldurinn var orðinn þróaður og mikill ákafi í honum strax í upphafi, sem í raun einkennir alla atburðarásina. Svo voru hlutir eins og gólf og þak farin að gefa sig þannig að þetta var mjög erfitt.“

Einn slökkviliðsmaður hlaut minni háttar meiðsl

Aðstæður á vettvangi voru því hættulegar fyrir þá sem komu að slökkvistarfinu í gær en þeir voru hátt í sextíu talsins. Einn slökkviliðsmaður féll úr þó nokkurri hæð ofan á reykköfunartæki en slapp við meiri háttar meiðsli.

„Hann er marinn og sem betur fer fór ekki verr. Núna eru menn að endurheimta sig eftir þetta verkefni því það þurfti að fara í margar reykkafanir og það er erfitt starf og tekur á,“ segir Jón Viðar að lokum.

Reykkafarar fóru margsinnis inn í húsið og það tók á.
Reykkafarar fóru margsinnis inn í húsið og það tók á. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert