Segist vinna eða tapa heiðarlega

Guðmundur Franklín á kjörstað í Menntaskólanum við Sund.
Guðmundur Franklín á kjörstað í Menntaskólanum við Sund. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég labbaði sömu leið og ég labbaði sem lítill strákur,“ segir Guðmundur Franklín Jónsson forsetaframbjóðandi í samtali við mbl.is. Guðmundur greiddi atkvæði á kjörstað í Menntaskólanum við Sund klukkan níu í dag, en hann gekk á kjörstað.

„Þetta vakti yndislegar minningar í góða veðrinu. Ég var samt mun fljótari á leiðinni en þegar ég var lítill tittur.“

Í dag hyggst Guðmundur halda út á land til að vera úti í sólinni. Hann mun síðan koma aftur í bæinn um kvöldmatarleytið og kíkja í boð hjá stuðningsfólki.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Vinnur eða tapar heiðarlega

„Ég er alltaf bjartsýnn,“ segir Guðmundur. „Þegar maður tekur þátt í svona, og er heiðarlegur við sjálfan sig og er heiðarlegur við aðra, þá líður manni vel. Hvernig sem þetta fer, þá vann ég eða tapaði heiðarlega.“

Hann beinir þá sjónum sínum að forsetanum, og kosningabaráttu hans. „Hefði ég verið svona ódrengilegur og misnotað aðstöðu mína eins og forsetinn gerði, þá myndi mér líða illa ef ég hefði unnið,“ segir Guðmundur Franklín.

„Ef hann vinnur verður þjóðin að eiga það við sjálfa sig, og hann verður að standa undir væntingum. Það er erfitt að standa undir væntingum ef fengurinn er illur.“

Hann segist þó óska landsmönnum til hamingju með daginn, og hvetur alla til að kjósa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert