Ekki búið að bera kennsl á hin látnu

Fjöldi fólks kom saman við Bræðraborgarstíg í dag og vottaði …
Fjöldi fólks kom saman við Bræðraborgarstíg í dag og vottaði hinum látnu virðingu sína. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vill árétta að ekki er búið að bera kennsl á þau þrjú sem létu lífið í brunanum. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Ekki er búið að bera kennsl á þau þrjú sem lét­ust í elds­voðanum á Bræðra­borg­ar­stíg á fimmtu­dag. Þetta ítrekar lögreglan á höfuðborgarsvæðinu í tilkynningu sem send var út síðdegis. 

Ásgeir Þór Ásgeirs­son­, yf­ir­lög­regluþjónn hjá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu, segir í samtali við mbl.is að kennslanefnd ríkislögreglustjóra, sem kölluð var til vegna málsins, vilji gefa sér tíma til að geta fullyrt 100 prósent hverjir viðkomandi eru. 

Enn er einn á gjör­gæslu og ann­ar á al­mennri deild á Land­spít­ala vegna brun­ans en frek­ari upp­lýs­ing­ar um líðan þeirra verða ekki gefn­ar að svo stöddu.

Íbúar Vesturbæjar og nágrannar í gamla Vesturbænum efna til kyrrðarstundar við Bræðraborgarstíg á morgun klukkan 18 til að votta hinum látnu virðingu sína og sýna samúð og samhug með þeim sem eiga um sárt að binda eftir eldsvoðann. Frá þessu er greint á facebooksíðunni Íbúasamtök Vesturbæjar

Ljóst er að fólk er slegið vegna brunans en í dag var efnt til samstöðufundar á Aust­ur­velli, þar sem at­hygli var vak­in á bágri aðstöðu er­lends verka­fólks á Íslandi. Að því loknu leiddi lög­regla göngu að hús­inu og bauðst fólki að votta þeim látnu og aðstand­end­um þeirra virðingu sína með því að leggja blóm við húsið.

mbl.is