„Þetta verður löng rannsókn“

Ásgeir Þór Ásgeirsson segir að vettvangsvinnu ljúki eftir helgina en …
Ásgeir Þór Ásgeirsson segir að vettvangsvinnu ljúki eftir helgina en í kjölfarið tekur við löng rannsóknarvinna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki er búið að bera kennsl á þau þrjú sem létust í eldsvoðanum á Bræðraborgarstíg á fimmtudag, að sögn Ásgeirs Þórs Ásgeirssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. 

„Þetta tekur tíma þar sem við þurfum að geta fullyrt 100 prósent hver viðkomandi er,“ segir Ásgeir í samtali við mbl.is.

Enn er einn á gjörgæslu og annar á almennri deild á Landspítala vegna brunans en frekari upplýsingar um líðan þeirra verða ekki gefnar að svo stöddu.

Púsla saman gögnum eftir vettvangsvinnu

Spurður hvernig rannsókninni miði segir Ásgeir:

„Þetta verður löng rannsókn og það er ágætt ef við náum að klára hana á mánuði. Vettvangsvinnu lýkur væntanlega eftir helgina. Það tekur bara við löng vinna við að púsla saman öllum þeim gögnum og vitneskju sem við erum búin að viða að okkur.“

Ekki er hægt að segja til um það núna hvort brunavörnum í húsinu hafi verið ábótavant.

Maður á sjö­tugs­aldri sem lét öllum ill­um lát­um við rúss­neska sendi­ráðið á fimmtudag og var hand­tek­inn af lög­reglu er í varðhaldi vegna mögu­legra tengsla hans við brun­ann. Maðurinn bjó í húsinu og kom eldurinn upp við vistarverur hans.

mbl.is