„Valdleysi er vandinn, aukin völd er lausnin“

Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti og borgarfulltrúi Sósialistaflokksins í Reykjavík.
Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti og borgarfulltrúi Sósialistaflokksins í Reykjavík. mbl.is/Eggert

„Borgarstjórnarflokkur sósíalista krefst þess að þau sem létu líf sitt í eldsvoðanum við Bræðraborgarstíg fái réttlæti í formi viðurkenningar yfirvalda á aðgerðaleysi sínu gagnvart kúgun innflytjenda í láglaunastörfum og aðgerða sem tryggja að þeirri kúgun linni og fólki verði ekki framar gert að búa við óöryggi, ótta og ósæmandi kjör og aðstæður.“

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá borgarstjórnarflokknum um eldsvoðann við Bræðraborgarstíg. Flokkurinn vottar aðstandendum þeirra sem létust í brunanum við Bræðraborgarstíg samúð sína. Þar segir að dauðinn sé ætíð ósanngjarn og grimmur en dauðsföll sem hefði mátt fyrirbyggja veki viðspyrnu og kröfu um réttlæti.

„Braskvæðing“ átt sér stað með stuðningi yfirvalda

Dauði fólksins í brunanum við Bræðraborgarstíg verður að vekja fólk til vitundar um þá kúgun sem viðgengist hefur í samfélaginu og af hálfu yfirvalda. „Braskvæðing“ húsnæðismarkaðar og vinnumarkaðar hafi átt sér stað með stuðningi yfirvalda og „oft með beinni aðkomu þeirra“ segir í yfirlýsingunni.

„Þrátt fyrir háværar kröfur um umbætur frá almenningi, fjölmiðlum, verkalýðsfélögum og öðrum fulltrúum almennings hafa yfirvöld ekki brugðist við, hvorki ríki, borg né önnur sveitarfélög. Og þegar á hefur reynt hafa stjórnvöld og dómstólar verndað braskarana en ekki fólkið sem þeir níðast á eða þau sem reynt hafa að berjast fyrir bættum aðbúnaði og kjörum innflytjenda. Þessu verður að snúa við.“

Afleiðing af kerfisbundnum fordómum

Í yfirlýsingunni er kallað eftir því að yfirvöld, þar með talin borgaryfirvöld, láti af kerfisbundinni fátæktar- og útlendingaandúð sinni og gangist við ábyrgð sinni.

„Þrátt fyrir fjölmargar ábendingar, skýrslur og úttektir sem dregið hafa fram óbærilegar aðstæður sem láglaunafólk og annað fátækt fólk býr við á húsnæðismarkaði og þrátt fyrir að bent hafi verið á að innflytjendur væru í sérstaklega veikri stöðu vegna veikrar félagslegrar stöðu og hversu háð þau eru launagreiðendum og húseigendum, þá hafa borgaryfirvöld ekkert gert, frekar en önnur yfirvöld.

Þetta sinnuleysi er ekki tilviljun. Það er afleiðing af kerfisbundnum fordómum og mismunun gagnvart varnarlausu fólki, valdalausu og fátæku,“ segir þar einnig.

Krefst þess að yfirstjórn Reykjavíkur gangist við ábyrgð

Borgarstjórnarflokkur sósíalista leggur til að skipað verði innflytjendaráð í Reykjavík þar sem innflytjendur í láglaunastörfum og í veikri stöðu á húsnæðismarkaði muni eiga sæti. Þá er það lagt til að Reykjavíkurborg styrki Leigjendasamtökin með því að leggja til húsnæði undir starfsemina og rekstrarkostnað miðað við tvo launaða starfsmenn.

Borgarstjórnarflokkur sósíalista krefst þess að yfirstjórn Reykjavíkurborgar gangist við ábyrgð sinni á húsnæðisvanda innflytjenda og annarra fátækra borgarbúa og viðurkenni að húsnæðisleysi hinna fátæku byggist ætíð á sinnuleysi yfirvalda.

Yfirlýsingin í heild sinni, á íslensku og ensku, fylgir með fréttinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert