„Ég er harmi lostin“

Frá þagnaðarstund við Bræðraborgarstíg í gær.
Frá þagnaðarstund við Bræðraborgarstíg í gær. mbl.is/Arnþór

Efling krefst þess að félagsmálaráðherra og ríkisstjórnin efni loforð um hertar aðgerðir gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði, þar með talin loforð um sektarheimildir vegna kjarasamningsbrota, og önnur viðurlög. 

Efling krefst þess einnig að allar stofnanir hins opinbera sem fara með eftirlit varðandi öryggi og heilsu borgananna sýni tilætlaða árvekni og taki eðlilegt frumkvæði að íhlutun þegar við á, en sýni ekki af sér vanrækslu og sinnuleysi þegar láglaunafólk eða fólk af erlendum uppruna á í hlut, segir í yfirlýsingu frá stéttarfélaginu. 

Efling sendir samúðarkveðjur til aðstandenda þeirra sem létu lífið í brunanum á Bræðraborgarstíg 1 hinn 25. júní. Félagið sendir einnig bataóskir til þeirra sem urðu fyrir tjóni og áfalli vegna brunans. 

„Staðfest er að tvö af þeim þremur sem létust í brunanum voru félagsmenn í Eflingu, verkafólk af erlendum uppruna sem komu hingað til lands til að vinna verkamannastörf. Hingað komin lentu þau í gildru einstaklings sem leigði þeim hættulegt húsnæði í óboðlegu umhverfi.“

Niðurstöðu úr rannsókn lögreglu er beðið, en Efling getur þó ekki annað en sett brunann í samhengi við þá meðferð sem aðflutt vinnuafl verður fyrir á Íslandi. Enginn skortur hefur verið á ábendingum um lögleysu og vanrækslu þegar kemur að stöðu erlends verkafólks á Íslandi. Á það bæði við réttindi á vinnumarkaði og húsnæðisaðbúnað,“ segir í yfirlýsingu Eflingar

„Ég er harmi lostin. Í starfi mínu síðustu tvö ár hef ég á hverjum einasta degi heyrt um launaþjófnað, arðrán, misbeitingu, rugl og ógeð. „Besti vinnumarkaður í heimi“ er ekkert nema martröð fyrir mörg af okkar aðfluttu félögum. Ég krefst þess að við hættum að þola skeytingarleysi þeirra sem völdin hafa yfir lífsskilyrðum félaga okkar sem þurfa mest af öllum á því að halda að gengið verði í að bæta þeirra kjör og aðstæður. Hinn hræðilegi harmleikur verður að hafa raunverulegar afleiðingar. Ég hef engin orð til að lýsa Íslandi ef það gerist ekki,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.

mbl.is