„Það voru ýmsir alvarlegir gallar á frumvarpi Pírata“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir að ýmsir alvarlegir gallar hafi verið á lagafrumvarpi Pírata sem miðaði að því að afglæpavæða neyslu fíkniefna. Var frumvarpið fellt á síðasta þingfundi fyrir sumarfrí þingsins núna á mánudagskvöldið.

Gagnrýndu í kjölfarið þingmenn Pírata sem og aðrir þingmenn í minnihlutanum afstöðu þingmanna Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sem annað hvort höfðu greitt atkvæði gegn frumvarpinu eða setið hjá. Var bent á að afglæpavæðing vegna neysluskammta væri samþykkt sem stefna beggja flokkanna.

Ekki eigi að refsa fyrir notkun vímuefna

Í færslu á Facebook í dag segir Áslaug að frá því að hún hóf þátttöku í stjórnmálum hafi hún verið þeirrar skoðunar að ekki eigi að refsa einstaklingur fyrir notkun vímuefna. „Ég er enn þeirrar skoðunar og mun, hér eftir sem hingað til, halda áfram að beita mér fyrir því sem kallað er afglæpavæðing fíkniefna,“ segir hún.

Segir Áslaug að þó hún hafi í grunninn verið sammála markmiðum frumvarpsins, þá hafi frumvarpið ekki verið nægjanlega vel unnið. „Þetta er ekki ályktun félagssamtaka eða stjórnmálaflokks, heldur landslög sem fela í sér refsiheimild. Því er enn meiri ástæða til að vanda sig þegar gera á breytingar á þeim.“ Tekur hún þar með í svipaðan streng og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sem sagði við mbl.is á þriðjudaginn að mjög miklu máli skipti að vandað væri við undirbúning málsins.

Meiri hörmungar af stríðinu gegn fíkiefnum en af neyslunni

Undanfarna áratugi hefur svokallað „stríð gegn fíkniefnum“ verið í gangi víða á vesturlöndum. Áslaug segir að slíkt stríð hafi að „öllum líkindum kallað yfir okkur meiri hörmungar en neyslan sjálf. Augljósustu dæmin má sjá í Mið- og Suður Ameríku en við sjáum líka afleiðingarnar hér á landi.“

Segir hún þetta vitað og flesta sammála um að vilja breyta þessu. En ekki sé nóg að „gera bara eitthvað og kalla það afglæðavæðingu.“

Vantaði skilgreiningu á neysluskömmtum

Fer hún því næst yfir frumvarp Pírata og segir að þar hafi mátt vanda betur til verka. „Það voru ýmsir alvarlegir gallar á frumvarpi Pírata. Í stað þess að greiða atkvæði um gallað frumvarp hefði verið réttara að vanda til verka og halda vinnunni áfram.“ Nefnir hún sem dæmi að í frumvarpinu sem var fellt hafi ekki verið nein skilgreining á neysluskammti. „Það er ekki hægt að búa til eða afnema refsiramma um einhver matskennd atriði sem ekki eru skilgreind í lögum. Hér er um að ræða líf fólks, viðkvæmt málefni og flókin sjúkdóm,“ segir Áslaug.

„Það er rétt að ráðast í þetta ferli sem fyrst“

Telur hún eðlilegt að drög að frumvarpi sé unnið í samstarfi við sérfræðinga og þá sem beita lögunum, t.d. refsiréttarnefnd, ríkissaksóknara og lögreglu. „Í kjölfarið er eðlilegt að frumvarpið fari í opið samráð. Það er rétt að ráðast í þetta ferli sem fyrst,“ segir Áslaug.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert