Njóta sömu réttinda á vinnumarkaði og Íslendingar

Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fólk sem kemur erlendis frá til starfa hér á landi nýtur sömu réttinda og Íslendingar á vinnumarkaði á grundvelli reglna um Evrópska efnahagssvæðið. Þetta segir Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra. 

Aðbúnaður og réttindi erlends verkafólks hefur verið mikið í umræðunni undanfarið í kjölfar eldsvoða á Bræðraborgarstíg í síðustu viku. Þrjú létust í eldsvoðanum. 

Ásmundur segir að verið sé að skoða hvernig best megi bæta kjör erlends verkafólks hér á landi, þá sérstaklega þegar kemur að húsnæðismálum.

Bræðraborgarstígur 1 er í eigu fyrirtækisins HD verks, rétt eins og Bræðraborgarstígur 3 og atvinnuhúsnæðis einingar í Kópavogi. Samkvæmt heimildum mbl.is hefur HD verk áður leigt húsnæði sín út til starfsmannaleiga. Í íbúðarhúsunum tveimur á Bræðraborgarstíg eru rúmlega 190 manns með lögheimili, en ekki er heimilt að vera með skráð lögheimili í atvinnuhúsnæði. 

„Almennt erum við bundin af frjálsu flæði fólks innan Evrópusambandsins og það sem lýtur að starfsmannaleigum lýtur að því. Við höfum verið að herða löggjöf um starfsmannaleigur miðað við það sem okkur leyfist innan ramma EES. Það er eins með fólk sem kemur erlendis frá að það nýtur bara sömu réttinda á vinnumarkaðinum og Íslendingar. Við erum í rauninni bundin hvað það snertir en við erum heilt yfir að skoða það sem snýr að húsnæðismálum verkafólks og stór hluti tillaga lífskjarasamningsins lutu einmitt að því,“ segir Ásmundur. 

Ásmundur segist vonast til þess að geta komið með minnisblað á ríkisstjórnarfund í næstu viku og kynna hugmyndir sem lúta að þessum efnum. 

Lögunum breytt við síðustu endurskoðun 

Slökkviliðið hefur heimildir til þess að loka atvinnuhúsnæði sé það ekki hæft til búsetu. Öðru máli gegnir um íbúðarhúsnæði, en ekki er hægt að framkvæma skoðun á brunavörnum ef að grunur leikur á um að þær séu ófullnægjandi án samþykkis eigenda eða ellegar með úrskurði dómara. 

Ásmundur segir að verið sé að skoða þau mál. 

„Þetta er samkvæmt lögum og kom inn í frumvarpið síðast þegar þessi lög voru endurskoðuð. Sjónarmiðin á bakvið það hafa eflaust verið þau að gæta friðhelgi einkalífs. Þetta er eitt af því sem við erum að fara yfir og skoða hvort að sé ástæða til að breyta en það þarf þá að skoða með fleiri aðilum, við þurfum að skoða það svolítið víðar,“ segir Ásmundur. 

Þá sé að hefjast átak til að efla brunavarnir hér á landi. 

„Við erum núna að hefja átak sem lýtur að bættum brunavörnum á grundvelli skýrslu sem var gerð á síðasta og þessu ári sem lagði til sjö aðgerðir sem við erum að byrja að hrinda í framkvæmd. Við gerum okkur grein fyrir því að brunavarnir þurfa að vera efldar, en líka að hafa það hugfast að brunavarnir eru hér góðar, hér verða færri brunar en í nágrannalöndunum. En betur má ef duga skal,“ segir Ásmundur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert