Tjáir sig ekki um stöðuna hjá lögreglunni á Suðurnesjum

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segist ekki ætla að tjá sig um starfsmannamál hjá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum meðan málið sé til meðferðar hjá ráðuneytinu. Þetta segir hún í svari til mbl.is, en Áslaug staðfestir að starfsmannamál tengd embættinu séu til meðferðar í ráðuneytinu.

„Unnið er að lausn málsins þannig að nauðsynlegri starfsemi embættisins verði áfram sinnt með eðlilegum hætti,“ segir Áslaug.

Í gær var greint frá því að Áslaug Arna hefði lagt til við Ólaf Helga Kjartansson lögreglustjóra að hann myndi víkja úr starfi. Ekki hefur fengist staðfest að svo sé og tók Ólafur ekki afstöðu til fullyrðinganna við mbl.is.

Málið tengist kvörtunum sem lagðar voru fram frá starfs­mönn­um lög­regl­unn­ar á Suður­nesj­um. Þar er kvartað und­an fram­göngu Ólafs sem lög­reglu­stjóra og einnig und­an einelti af hálfu tveggja annarra starfs­manna hjá embætt­inu, meðal ann­ars Öldu Hrann­ar Jó­hanns­dótt­ur, yf­ir­lög­fræðings embætt­is­ins.

mbl.is