„Held að við séum í nokkuð góðum málum“

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir. Ljósmynd/Lögreglan

Allt bendir til þess að við séum að ná tökum á þeim hópsýkingum sem hafa komið upp að undanförnu, að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnarlæknis.

„Ég held að við séum í nokkuð góðum málum. Við munum halda áfram á þessari braut sem við erum að feta,“ sagði Þórólfur á blaðamannafundi almannavarna.

Hann segir niðurstöður úr skimun Íslenskrar erfðagreiningar sýna að samfélagslegt smit virðist ekki vera útbreitt. Haldið verður áfram að taka sýni um helgina og verður fylgst vel með niðurstöðunni úr þeim.

Íslensk erfðagreining hóf skimanir aftur 29. júlí og rúmlega 1.900 manns hafa verið skimaðir. Tveir hafa greinst jákvæðir þar. „Það virðast vera mjög fá smit í samfélaginu, að minnsta kosti eins og tölurnar líta út núna,“ sagði Þórólfur.

Raðgreining sýnir að verið er að fást við tvær hópsýkingar. Búast má við fleiri jákvæðum sýnum og greiningum á næstu dögum. Eina til tvær vikur tekur að sjá niðurstöður og árangur af aðgerðunum sem tóku gildi í dag.

Verið er að bíða eftir raðgreiningu á mörgum þeirra sjö innanlandssmita sem greindust í gær. Smitrakning er einnig í gangi.

Sá sem liggur á Landspítalanum með Covid-19 er ekki á gjörgæslu.

25 smit hafa greinst á landamærunum

Tekin voru sýni frá tæplega 1.200 manns í gær. Alls komu 3.800 farþegar til landsins. Enginn var með staðfest smit en eitt sýni er í biðstöðu.

Tæplega 100 þúsund farþegar hafa komið til landsins frá 15. júní. Sýni hafa verið tekin frá um 63 þúsund einstaklingum og hafa 25 manns greinst á landamærunum. Af þessum 25 eru 10 búsettir á Íslandi en aðrir eru langflestir frá svokölluðum áhættulöndum.

„Mjög fá smit hafa orðið út frá þessum sem hafa greinst á landamærunum,“ sagði Þórólfur.

mbl.is

Bloggað um fréttina