Hvítrússnesk stjórnvöld hætti ofsóknum

AFP

Utanríkisráðherrar Norðurlanda og Eysrasaltslanda lýsa yfir þungum áhyggjum af ofbeldi gegn mótmælendum í Hvíta-Rússlandi vegna forsetakosninga sem fram fóru á sunnudag. Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu ráðherranna átta, sem gefin var út í gær.

For­seti Hvíta-Rúss­lands, Al­ex­and­er Lúka­sj­en­kó, var þá endurkjörinn með um 80% atkvæða samkvæmt opinberri talningu, en mótframbjóðandi hans, Sviatlana Tsikhanouskaya fékk 10%. Vestræn ríki og alþjóðastofnanir hafa dregið úrslitin í efa og gengið mislangt í að lýsa því yfir að kosningarnar hafi ekki verið frjálsar og lýðræðislegar. Þannig var Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu til að mynda meinað að hafa eftirlit með framkvæmd kosninganna.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í yfirlýsingu ráðherranna átta segir að kosningarnar hafi hvorki verið í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Hvíta-Rússlands né alþjóðleg viðmið um lýðræði og réttarríki. Þá hafi kosningarnar hvorki verið frjálsar né sanngjarnar.

Í kjölfar kosninganna hafa umfangsmikil mótmæli brotist út í landinu. Hundruð mótmælenda hafa verið handteknir og myndbönd hafa verið birt á netinu sem sýna harðræði lögreglu. Eitt þeirra sýnir til að mynda lögreglubíl keyra á töluverðum hraða inn í hóp mótmælenda en mannréttindasamtökin Viasna segja að ungur mótmælandi hafi dáið vegna þess. Þá hefur Tsikhanouskaya, mótframbjóðandi forsetans, flúið land.

Utanríkisráðherrar Norðurlanda og Eystrasaltslanda hvetja stjórnvöld til að láta af ofsóknum í garð mótmælenda og sleppa tafarlaust öllum þeim sem ranglega eru í haldi.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert