Hótanir Pútíns liður í áróðrinum

Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra.

Ákvörðun Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta, um að flytja kjarnavopn til Hvíta-Rússlands, er liður í áróðursmoldviðrinu, sem forsetinn hefur oftar en einu sinni stofnað til með gálausu tali eftir að innrás hans hófst í Úkraínu.

Þetta er mat Björns Bjarnasonar, fyrrverandi dóms- og kirkjumálaráðherra.

Pútín tilkynnti í gær að komið yrði upp birgðastöð fyrir vígvallarkjarnavopn í Hvíta-Rússlandi fyrir 1. júlí og að Rússar hefðu sent tíu flugvélar til landsins sem gætu flutt kjarnavopn á vígvöllinn, auk þess sem skotpöllum fyrir skammdræg Iskander-flugskeyti væru þar nú þegar og þau mætti nota til að skjóta kjarnaoddum.

Hvíta-Rússlandi haldið í gíslingu

„Er þetta nokkuð annað en liður í áróðursmoldviðrinu sem Pútín hefur stofnað til, oftar en einu sinni, í kringum kjarnorkuvopn síðan hann hóf innrásina í Úkraínu?“ spyr Björn.

Ráðamenn í Kýiv telji að þetta sýni að Hvíta-Rússland sé í raun komið í kjarnavopnagíslingu hjá Pútín.  

„Það sem er alvarlegt í þessu er að þetta er í fyrsta sinn frá því Sovétríkin hrundu, sem Rússar færa kjarnorkuvopn til annars lands. Sovétríkin höfðu kjarnorkuvopn í Hvíta-Rússlandi, Úkraínu og Kasakstan, en þau voru öll flutt þaðan með brotthvarfi Sovétríkjanna,“ segir Björn.   

Þegar kjarnavopn voru tekin frá Úkraínu var samið um að Rússar myndu virða landamæri ríkisins og tryggja öryggi þjóðarinnar.   

„Við sjáum hvernig við það hefur verið staðið. Þetta fordæmi, að flytja kjarnorkuvopn frá Rússlandi til Hvíta-Rússlands, ógnar ekki öðrum en íbúum í Hvíta-Rússlandi. Því að, eins og Úkraínumenn spyrjaHvernig er hægt að valda meira tjóni í Úkraínu en gert hefur verið?“ 

Frá Rauða torginu í Moskvu.
Frá Rauða torginu í Moskvu. AFP

Notað til þess að draga athyglina að öðru en hrakförum

Svokölluð vígvallarkjarnavopn, sem eru smærri í sniðum en önnur kjarnavopn, breyti í raun engu að því leyti að Rússar ráðist á og eyðileggi allt sem þeim detti í hug.

Ólíklegt sé að vopnin verði notuð á vígvellinum sjálfum.   

„Þau verða notuð gegn almennum borgurum til þess að hræða fólk og brjóta baráttuvilja á bak aftur. Það er ekki líklegt að þetta sé annað en liður í að veifa kjarnorkuvopnum þegar illa stendur á hjá Rússum til þess að draga athyglina að öðru en hrakförum á vígvellinum sjálfum.“   

Þá segir Björn að ekki megi gleyma því að á nýlegum fundi Xi Jinping, forseta Kína, og Pútíns Rússlandsforseta, hafi þeir lagt áherslu á að aldrei mætti beita kjarnorkuvopnum og að slíkt væri óvildarverk gegn mannkyninu öllu 

Hótanir Pútíns stangast á við yfirlýsingarnar sem þeir félagar gáfu þar. Úkraínustjórn hefur beðið um fund í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna út af málinu,“ bætir hann við.

Medvedev gangi lengst í hræðsluáróðrinum

Björn minnir á að Dmitrí Medvedev, fyrrverandi forseti og forsætisráðherra Rússlands, hafi gengið lengst í hræðsluáróðrinum.  

„Hann hefur hótað því að kjarnorkuárás verði gerð á borgir landa þar sem Pútín kynni að verða handtekinn eftir að hann varð eftirlýstur glæpamaður af Alþjóðasakamáladómstólnum.

Fari forsetinn til einhverra þeirra 123 landa sem eiga aðild að dómstólnum kunni hann að verða handtekinn. Medvedev hóti því að kjarnorkuvopnum verði beitt gegn því ríki þar sem það kynni að gerast.

„Hann sagði líka að það væri rétt að senda ofurhljóðfráa flaug á aðsetur Alþjóðasakadómstólsins í Haag. Það er með ólíkindum hvernig þessir menn tala. Þessi ósköp blasa þó við okkur.“ 

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2023/03/26/nato_fordaemir_haettulega_ordraedu_um_kjarnavopn/

Langdræg rússnesk eldflaug, sem borið getur kjarnaodda, prófuð í landinu …
Langdræg rússnesk eldflaug, sem borið getur kjarnaodda, prófuð í landinu í apríl í fyrra. AFP

Ólíklegt að ráðist verði gegn aðildarríkjum NATO

Björn segir óhugsandi að kjarnavopnum verði beitt gegn aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins.

Spennan vegna vopnanna sé fyrst og fremst á milli Rússa, Hvítrússa og Úkraínumanna, sem áttu náið samstarf undir hatti Sovétríkjanna. 

Pútín óttist að Hvíta-Rússland fari sömu leið og Úkraína og haldi dauðahaldi í Alexander Lúkasjenkó, síðasta einræðisherra Evrópu, sem setið hafi að völdum frá árinu 1994.  

Pútin vill ekki sleppa tökunum á Hvíta-Rússlandi. Hann sér hvað gerist í Úkraínu og hann er að reyna að festa Hvíta-Rússland enn frekar með þessu, enda segja menn í Kýiv að Hvíta-Rússland sé orðið gísl kjarnorkuvopna Pútíns.“   

Loks bendir Björn á að það kunni að draga dilk á eftir sér annars staðar í heiminum þegar kjarnorkuveldi tekur til við að flytja kjarnorkuvopn sín til annars lands.  

„Hvað með Taívan? Verður þolað að Taívan óski eftir að fá kjarnorkuvopn eða koma sér upp kjarnorkuvopnum, sé þetta látið óátalið sem Pútín er nú að gera?“ spyr Björn að lokum.

mbl.is