Vísa gestum til borðs til að tryggja sóttvarnir

Fólk á gangi í miðbæ Reykjavíkur.
Fólk á gangi í miðbæ Reykjavíkur. mbl.is/​Hari

Margir veitinga- og samkomustaðir á höfuðborgarsvæðinu eru byrjaðir að taka á móti gestum við innganginn og vísa til borðs til að fylgjast betur með gesta fjölda innandyra, tryggja sóttvarnir, tveggja metra reglu á milli gesta og til að fá sem besta nýtingu út úr sætaskipan staðarins.

Virðist það vera að gefa góða raun fyrir þá staði þar sem þetta hefur verið tekið upp, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór á 49 veitinga- og samkomustaði í gærkvöldi til að athuga með ráðstafanir varðandi sóttvarnir og tveggja metra reglu.

Mjög margir staðir voru með sín mál algerlega á hreinu og til fyrirmyndar hvað varðar bil á milli borða, merkingar og sótthreinsi stöðvar.

Nokkrir staðir fengu ráðleggingar um frekari eða betri úrlausnir hvað varðar tveggja metra regluna og betri sóttvarnir.

Þá voru nokkrir staðir sem voru með allt til fyrirmyndar innandyra en þurftu að gera örlítið betri ráðstafanir á reykingasvæðum utandyra og þar sem um var að ræða útiveitingar á borðum utandyra.

Tveir staðir þurftu að gera úrbætur til að tryggja að hægt væri að framfylgja tveggja metra reglunni og voru gerðar úrbætur á meðan lögregla var á staðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert