Úttekt á starfssemi leitarstöðvar hafin

Landlæknisembættið sinnir eftirliti með starfsemi Krabbameinsfélagsins.
Landlæknisembættið sinnir eftirliti með starfsemi Krabbameinsfélagsins. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Embætti landlæknis hefur hafið athugun á starfsemi Krabbameinsfélagsins í kjölfar máls sem kom upp nýverið þar sem kona sem fékk ranga greiningu við skimun fyrir leghálskrabbameini. Konan er núna með ólæknandi krabbamein og er skaðabótakrafa í vinnslu.

Aðstoðarmaður landlæknis segir að ekki sé endilega ástæða til þess að ætla að einhver brotalöm sé í starfsemi leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins. Hins vegar gefi þetta alvarlega mál tilefni til þess að rannsaka það til hlítar og að það muni eðlilega hafa í för með sér heildræna úttekt á starfi leitarstöðvarinnar.

Skoða mál konunnar sérstaklega

„Það þarf að skoða þetta alvarlega mál alveg sérstaklega og eðlilega mun það hafa í för með sér að heildræn athugun verði gerð á starfsemi leitarstöðvarinnar,“ segir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, í samtali við mbl.is. Hann segir jafnframt að fylgjast þurfi grannt með þeirri endurgreiningu sýna sem fari nú fram.

„Embætti landlæknis mun að sjálfsgöðu hafa eftirlit með endurskoðun þessara sýna sem nú stendur yfir. Okkur hefur einnig fundist að gott væri að fá einhvern utanaðkomandi aðila til þess að fara yfir alla þessa starfsemi með okkur og hefur Krabbameinsfélagið tekið vel í það.“

Leita eftir erlendum sérfræðingum

Kjartan segir hins vegar að skimanir fyrir leghálskrabbameini séu flóknar rannsóknir og mikla sérfræðiþekkingu þurfi. Þess vegna þurfi mögulega að leita út fyrir landsteinana til þess að finna hæfa sérfræðinga.

„Svona rannsóknir eru gríðarlega flóknar og það þarf mikla sérfræðikunnáttu til. Eins og staðan er núna er flest okkar hæfasta fólk nú þegar starfandi hjá leitarstöð Krabbameinsfélagsins og þess vegna horfum við til erlendra sérfræðinga og hvort einhver fáist til þess að koma hingað til lands og fara yfir þetta með okkur.

Við erum búin að kasta út ansi víðu neti í leit okkar að sérfræðingum og erum því vongóð um að einhver hæfur finnist fljótlega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert