Bendir á að fleiri hafi birt nafn Andreu

Hafliði Breiðfjörð framkvæmdastjóri Fótbolta.net.
Hafliði Breiðfjörð framkvæmdastjóri Fótbolta.net. mbl.is/Eggert

„Allir helstu fjölmiðlar landsins völdu að fara sömu leið og Fotbolti.net og birtu nafn leikmannsins. RÚV og Stöð 2 unnu sínar fréttir útfrá sínum eigin upplýsingum og nafnbirtu leikmanninn óháð frétt Fotbolti.net. mbl, Vísir, Fréttablaðið, DV og Mannlíf birtu einnig nafnið og vísuðu í frétt Fotbolti.net. Allir þessir fjölmiðlar lúta sjálfstæðri ritstjórn sem taldi að nafnbirting væri rétt,“ skrifar Hafliði Breiðfjörð, framkvæmdastjóri Fótbolta.net, um úrskurð siðanefndar Blaðamannafélags Íslands.

Úrskurðurinn kveður á um að Hafliði og tveir aðrir hafi brotið siðareglur í tengsl­um við nafn- og mynd­birt­ingu af Andr­eu Rán Snæ­feld Hauks­dótt­ur knatt­spyrnu­konu eft­ir að hún hafði greinst með Covid-19.

Hafliði vildi ekki tjá sig frekar um málið þegar blaðamaður leitaði eftir viðbrögðum hans en gaf leyfi fyrir birtingu ummæla hans um að fleiri miðlar hefðu birt nafn Andreu. 

Tekist á um úrskurðinn

Í úr­sk­urðinum sem birt­ur var í dag kem­ur fram að siðanefnd telji meg­in­at­riði máls­ins vera að nafn Andr­eu hafi verið birt í heim­ild­ar­leysi ásamt mynd af henni í tengsl­um við frétt af smiti leik­manns í úr­vals­deild kvenna í knatt­spyrnu.

Seg­ir í úr­sk­urðinum að siðanefnd­in telji ekki að sér­stök nauðsyn hafi verið til að upp­lýsa um nafn Andr­eu eða að birta mynd af henni vegna þessa.

Fjölmiðlamenn og aðrir hafa tekist á um úrskurðinn inni á hópnum Fjölmiðlanördar. Þar hafa t.a.m. þau ummæli verið látin falla að úrskurðurinn sé til skammar fyrir Blaðamannafélag Íslands og að almenningsálitið hafi augljóslega haft mikil áhrif á hann. Einhverjir fagna úrskurðinum þó og segja að heilsufarsupplýsingar séu viðkvæmar upplýsingar og varlega þurfi að fara í nafnbirtingu í fréttaflutningi af slíku. 

mbl.is