Vísað úr landi í fyrramálið

Egypsku fjölskyldunni verður vísað úr landi í fyrramálið.
Egypsku fjölskyldunni verður vísað úr landi í fyrramálið. Ljósmynd/Sema Erla Serdar

Kærunefnd útlendingamála hefur hafnað því að fresta réttaráhrifum í máli egypsku fjölskyldunnar sem á að vísa úr landi í fyrramálið.

Nefndin hefur einnig lýst því yfir að hún muni ekki afgreiða þær tvær beiðnir sem eru á borði hennar um endurupptöku málsins.

Þetta segir Magnús D. Norðdahl, lögmaður fjölskyldunnar, í samtali við mbl.is.

Með hliðsjón af því að ríkisstjórnin ætlar ekki að beita sér í málinu segir hann engar lögformlegar leiðir lengur hægt að fara til að koma í veg fyrir brottvísunina.

Brottvísuninni var mótmælt á Austurvelli í dag.
Brottvísuninni var mótmælt á Austurvelli í dag. mbl.is/Hallur

Katrín og Ásmundur hefðu átt að beita sér

Hann segir að þó svo að málaflokkurinn heyri undir dómsmálaráðherra hefðu Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Ásmundur Einar Daðason barnamálaráðherra átt að beita sér. „Það er bagalegt að þau hafi ekki gert það af þeirri ástæðu að framferði þeirra í málinu í dag er ekki í samræmi við þau gildi sem þau segjast standa fyrir. Þá tel ég jafnframt að þau hafi svikið allt sitt bakland og sína kjósendur í síðustu alþingiskosninum,“ segir Magnús og telur að stjórnmálamenn átti sig ekki á þunga málsins og undiröldunni í samfélaginu.

„Mælikvarði á gildi hvers samfélags er hvernig samfélagið kemur fram við sína viðkvæmustu hópa. Þar eru börn fremst í flokki. Mælikvarði á gildi stjórnmálaflokki er sama marki brenndur,“ bætir hann við.

„Það er ákaflega sorglegt að kerfið hafi brugðist fjölskyldunni og síðar stjórnmálamenn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert